133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:27]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ósköp eðlilegt að hv. þingmanni sé brugðið og að hún hækki róminn í svari við andsvari við mig vegna þess að Samfylkingin vissi ekkert á sumarmánuðum hvert hún var að stefna í efnahagsmálum. Það er ósköp eðlilegt að hv. þingmanni gremjist að vera hluti af þingflokki sem talar út og suður í mjög mikilvægum málum eins og húsnæðismálum þjóðarinnar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mótmælti því harðlega í sumar að við værum að lækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs og skerða lánshlutfallið. Hvað gerði hv. formaður Samfylkingarinnar í þeirri umræðu? Hún taldi að ríkisstjórnin hefði átt að ganga miklu lengra í þeim efnum og sýna ábyrgð. Samfylkingin talaði því út og suður í þeim efnum, forustumenn Samfylkingarinnar. Því er ósköp eðlilegt að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hækki hér róminn í því óöryggi sínu vegna þess að Samfylkingin lagði ekki fram neinar trúverðugar tillögur í efnahagsmálum í sumar þegar reyndi á öflugan og sterkan stjórnarandstöðuflokk að koma fram með trúverðugar lausnir. Nei, þess í stað talar Samfylkingin til hægri og vinstri eins og í svo mörgum öðrum málum. (Gripið fram í: En af hverju var ... í sumar?) Það er ástæða til að hugleiða hvort slíkur flokkur sem talar með slíkum hætti í húsnæðismálum þjóðarinnar, út og suður, þ.e. forustumenn flokksins, (Gripið fram í.) sé stjórntækur. Ég vil leyfa mér að efast um að hv. formaður Samfylkingarinnar hafi ástundað þau samræðustjórnmál sem hún boðaði. Við getum tekið sem dæmi lækkun á matarskattinum. Þar var skotið fyrst og spurt svo. Hún kom með sínar tillögur án samráðs við helstu aðila sem málið snerti. Í bullandi ágreiningi lagði Samfylkingin það fram að leggja íslenskan landbúnað í rúst og atvinnulíf á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Hvaða, hvaða!) Þetta eru ekki samræðustjórnmál heldur er hér ... (Gripið fram í: Hótað.) (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Þetta er bara rugl.) heldur er hér um ... (Gripið fram í: Rugl að ræða.) (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ég kemst nú ekki að, hæstv. forseti.

(Forseti (JóhS): Tíminn er löngu búinn.)

(Gripið fram í: Er tíminn ekki búinn?) Það er kannski eðli...

(Forseti (JóhS): Hv. þingmaður er kominn 15, 16 sekúndum fram yfir og ég óska eftir að hann yfirgefi ræðustólinn.)

Það er erfitt út af frammíköllum, hæstv. forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (JóhS): Frammíköll eru algeng hér eins og hv. þingmaður veit mætavel.)