133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:50]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 og að venju er eðlilegt að nokkur umræða fari fram um þau vinnubrögð sem tíðkast hjá ríkisstjórninni og meiri hlutanum á þinginu varðandi umgengni um fjárreiðulög sem tengjast eðlilega bæði fjárlagagerðinni og fjáraukalagafrumvörpum. Ég mun ekki eyða miklum tíma í það því að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór nokkuð nákvæmlega yfir þau mál og hvernig við höfum undanfarin ár verið að leggja áherslu á að vinnubrögðum verði breytt. Við höfum gjarnan vitnað til skýrslna frá Ríkiendurskoðun en því miður hefur þurft að endurtaka sömu hlutina í þeim efnum ár eftir ár.

Það er eðlilegt að tengja við þá umræðu hástemmdar yfirlýsingar frá hv. þm. Birki J. Jónssyni, formanni fjárlaganefndar, um að nú verði vinnubrögðum gjörbreytt. Ég verð þó að segja það, frú forseti, að það er ekki eins og ég sé að heyra þetta í fyrsta skipti frá formönnum fjárlaganefndar. Ég er búinn að vera í fjárlaganefnd það lengi að hv. þingmaður er fjórði formaður nefndarinnar á þeim tíma. Það skiptir nokkuð ört út hjá Framsóknarflokknum eins og þingheimur veit en í fjárlaganefndinni er Birkir J. Jónsson sem sagt fjórði formaðurinn frá 1999. Það hafa oft verið mjög fögur fyrirheit hjá bæði formanni fjárlaganefndar sem þá var, Ólafi Erni Haraldssyni, og síðan þeim sem næstur var á undan Birki J. Jónssyni hv. þm., þ.e. Magnús félagsmálaráðherra okkar sem var fjárlaganefndarformaður í nokkur ár. Hæstv. ráðherra Magnús Stefánsson hafði einmitt fögur orð um það á stundum að að gjörbreyta þyrfti vinnubrögðunum en af einhverjum ástæðum — og ég efast ekkert um fullan vilja hæstv. félagsmálaráðherra til þess að breyta vinnubrögðunum — komst hann ekki áfram með málið.

Ég verð þó að setja hér í samhengi ummæli hæstv. fjármálaráðherra sem mér heyrðist í andsvari áðan boða ákveðna mildi í garð fjárlaganefndar, þ.e. hæstv. fjármálaráðherra, sem sat mjög lengi í fjárlaganefnd og þekkir þar af leiðandi vinnuferlið og ég gat ekki heyrt betur en hann gerði sér fyllilega grein fyrir því hver ábyrgð nefndarinnar væri, hver ábyrgð Alþingis væri varðandi það t.d. að meta útgjaldalið bæði fjáraukalaga og fjárlaga. Þetta er grundvallaratriði og ég vona að núverandi formaður fjárlaganefndar hafi tekið eftir þessum orðum hæstv. fjármálaráðherra og að meiri hluti nefndarinnar muni taka þessari áskorun hæstv. fjármálaráðherra að taka það hlutverk sitt mjög alvarlega að fara yfir útgjaldaþarfir stofnana og einstakra liða í fjárlögum. Það er algjört grundvallaratriði ef við ætlum að ná tökum á fjárlagaferlinu sem slíku, það verður að byrja á áætlunargerðinni, hún er grundvöllurinn fyrir því að eðlilegt sé að grípa til þeirra úrræða sem fjárreiðulögin og reglugerðin um framkvæmd fjárlaga gerir ráð fyrir. Ég hef nokkrum sinnum nefnt þetta og get endurtekið það og mun enda umræðu mína um vinnubrögðin með því að vekja athygli á að ástæðan fyrir því að menn hafa ekki getað farið eftir reglugerðinni og t.d. veitt forstöðumönnum stofnana áminningar þegar þeir fara langt yfir fjárlagaheimildir er sú að kerfið veit að í allt of, allt of mörgum tilfellum er vanáætlað til stofnana vegna þeirrar þjónustu sem þær eiga að veita og menn eru því ekki reiðubúnir til þess að tilgreina hvaða þjónustu á að skera af. En það er sem sagt mikilvægasta skrefið nú á haustdögum að fjárlaganefndin vinni málið á þennan hátt og eins og ég sagði áðan, frú forseti, þá er ekki annað að heyra, og orð eru auðvitað til alls fyrst, en að nýkjörinn formaður fjárlaganefndar og hæstv. fjármálaráðherra séu í raun og veru sammála okkur um að þannig eigi að gera þetta og þá reynir á að menn standi við orð sín í þeim efnum.

Ég var áðan í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra og nefndi örfá dæmi varðandi það sem vekti sérstaka athygli mína í fjáraukalagafrumvarpinu. Það eru auðvitað miklu fleiri atriði sem hægt væri að tína til en það er spurning hversu mikið við eigum að gera í þeim efnum. Ég vil aðeins nefna örfá atriði, sem þó er búið að fara nokkuð yfir og ég mun því fara mun hraðar yfir en ég hafði ætlað, þ.e. áætlunargerðin, hvernig hún kemur út. Það blasir við að það er viðskiptahallinn sem hefur hvað mest farið á skjön við fyrri áætlun og hefur aukist stórlega. Það er hins vegar rétt að vekja athygli á orðalagi í texta úr fjármálaráðuneytinu sem ég er ekki alveg sammála.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Stóran hluta hallans“ — þ.e. viðskiptahallans — „eða um 30% má rekja beint til stóriðjuframkvæmda.“

Ég er alls ekki sammála því að þetta sé stór hluti hallans, 30% vegna þessara miklu framkvæmda sem þarna eru. Ég held að það sé augljóst mál að hin 70 prósentin eru það sem hefur farið á skjön við áætlanir vegna þess að við vissum í raun og veru hvaða áhrif stóriðjuframkvæmdir mundu hafa á þennan halla þannig að vöxturinn í hallanum er ekki vegna stóriðjuframkvæmdanna. Þess vegna er í besta falli hægt að segja að þetta sé óvarlega orðað í frumvarpinu, þetta minnir á orðalag sem ónefndur stjórnmálaflokkur notar æðioft þegar hann er að reyna að sverta stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan.

Það er fleira en viðskiptahallinn sem vekur athygli, hann er hvað alvarlegastur í þessu, en það er verðbólgan sem slík. Það er hún sem fólkið í landinu finnur fyrst og fremst fyrir. Þá vek ég líka athygli á því að verðbólgan á ekki upptök sín að stórum hluta í stóriðjuframkvæmdunum, raunverulega miklu minni hluta en menn gerðu ráð fyrir þegar ákveðið var að fara út í framkvæmdirnar. Ástæðan er sú að það hefur verið flutt inn meira af vinnuafli en gert var ráð fyrir þannig að áhrif stóriðjuframkvæmdanna á efnahagslífið að þessu leytinu til hafa í raun og veru verið minni en margir óttuðust.

Það er fyrst og fremst óvarleg keyrsla ríkisstjórnarflokkanna sem hefur orsakað þessa miklu verðbólgu. Og það er mjög athyglisvert að heyra síendurtekna ræðustúfa hv. þm. Birkis J. Jónssonar varðandi verðbólguna. Hv. þingmaður virðist halda að verðbólgan hafi orðið til á einu augnabliki einhvern tíma um hásumar, þá hafi allt í einu eitthvað gerst í efnahagslífinu sem enginn hafði séð fyrir. Síðan hafi ríkisstjórnin beitt hinum mögnuðu hókus pókus aðferðum, þ.e. að fresta framkvæmdum aðallega í landsbyggðarkjördæmunum tveimur stóru, þ.e. Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, og þá hafi allt saman breyst á einni svipstundu. Þetta er auðvitað afskaplega mikil einföldun á raunveruleikanum.

Hv. þingmaður fór mikinn og ásakaði Samfylkinguna fyrir það að því er virtist að hafa verið á móti því að lækka verðbólgu. Við höfum hins vegar lagt megináherslu á það, sérstaklega fyrir ári síðan, vegna þess að við teljum að ríkisfjármálin komi þarna við sögu og við teljum að ríkisstjórnin hafi stóru hlutverki að gegna í því að vinna gegn verðbólgu. Þess vegna lögðum við til að fjárlögin fyrir þetta ár tækju mið af því hættuástandi sem var orðið þegar fjárlögin voru hér til umræðu í fyrra. Þá var ekkert á okkur hlustað, þá hafði hv. þingmaður ekki neinar áhyggjur af verðbólgu. En ég hef sagt það áður og þetta sýnir okkur enn einu sinni að því miður starfar ríkisstjórnin þannig að hún bregst bara við orðnum hlut. Hún reynir ekki að hafa áhrif á það hvernig hlutirnir þróast heldur þegar í óefni er komið, eins og með verðbólguna í sumar, þá er allt í einu vaknað upp við vondan draum og sagt: ja, nú verðum við að gera eitthvað. Og hvað var þá gert? Jú, þá var öllum framkvæmdum sem ekki var búið að bjóða út frestað og vonað að það hefði áhrif til lækkunar verðbólgu.

Auðvitað hafði það engin eða sáralítil áhrif til lækkunar verðbólgu. Hins vegar hafði samningurinn sem gerður var við aðila vinnumarkaðarins miklu meiri áhrif. Þar var frumkvæðið annars staðar, nákvæmlega eins og fyrra skiptið að við sáum verðbólguna rísa. Þá komu sömu aðilar að borðinu og leiddu ríkisstjórnina í réttan farveg til að reyna að vinna gegn því að verðbólgan skerti hlut fólksins í landinu. Þetta tókst sem betur fer í sumar.

Ég vona sannarlega að áfram verði haldið með að vinna gegn verðbólgunni þótt í því liggi ákveðin hætta að við erum að sigla inn í kosningaár. Við sjáum að ríkisstjórnin er farin að óttast úrslit kosninganna með því að stilla af ýmsa hluti. Það er athyglisvert að matarskatturinn sem slíkur, sem við höfum reynt að berja ríkisstjórnina til að lækka, skuli lækkaður 1. mars. Það er auðvitað athyglisverð dagsetning en ég sé ekki betur.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að vissulega væri hægt að minnka það athyglisverða hlutfall, að skatttekjur hafi verið að hækka sem hlutfall af landsframleiðslu. Auðvitað væri það hægt með ýmsum leiðum. Hann taldi, sem ég tel rétt hjá hæstv. ráðherra, að það gæti verið nokkuð flókið að fara inn í persónuafsláttinn á miðju ári til að lækka þetta hlutfall. En matarskatturinn hefði hugsanlega getað komið til greina. Ég verð að segja að nægur hefur tíminn verið fyrir ríkisstjórnina til að undirbúa þetta þrep sitt þótt auðvitað hafi verið athyglisvert, þrátt fyrir orð hv. þm. Birkis J. Jónssonar, að Bændasamtökin tilkynntu að samráð við þau hafi ekkert verið. En að sjálfsögðu munu þessar tillögur hafa áhrif á kjör bænda. Það er sérstakt að ekki hafi verið leitað samráðs við þá um það. Í þessum tillögum er ekkert um það hvernig aðlögun landbúnaðarins eigi að vera með þessum breytingum. Ég vek athygli á því að þessi breyting hefði getað komið fyrr til í þrepum. Það hefði verið hægt að byrja á virðisaukaskatti af matvælum og þar með lækka skatthlutfallið sem hér kom örlítið til umræðu.

Frú forseti. Varðandi verðbólguna væri hægt að halda langa ræðu um hvernig hv. þm. Birkir J. Jónsson upplifir verðbólguþróunina. Ég vona sannarlega að hv. þingmaður átti sig á því að verðbólgan verður að sjálfsögðu ekki til bara si svona. Hún kemur ekki fljúgandi ofan úr loftinu og lendir bara allt í einu. Ýmislegt hefur gerst áður en ósköpin dynja yfir.

Ég spurði hv. þingmann, þegar hann var með heitstrengingar um breytingu á vinnubrögðum í fjárlaganefnd. Og er eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það vegna þess að við erum að ræða um þessi mál. Ef við ætlum að vanda vinnubrögð, þurfum við ekki bara að hafa fjárlagafrumvarp og frumvarp um fjáraukalög. Við þurfum líka að hafa lokafjárlög. Í lögum um fjárreiður ríkisins segir að þegar ríkisreikningur er fram lagður eigi lokafjárlög að fylgja. Því miður gerist það ekki, eitt árið enn. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvenær við eigum von á að fá lokafjárlög fyrir árið 2005. Ég vona sannarlega að það verði sem allra fyrst þannig að nefndin geti haft það plagg við hendina þegar kemur að því að fjalla um fjárlagafrumvarpið og fjáraukalagafrumvarpið sem vinna er hafin við í nefndinni.

Ég sagðist ætla að taka fyrir nokkra liði sem hafi vakið sérstaka athygli mína í frumvarpinu. Ég nefndi áðan frestun framkvæmda, vegaframkvæmda sem hv. þm. Birkir J. Jónsson virðist enn trúa að hafi haft alveg gífurleg áhrif til að keyra niður verðbólgu, úrslitaáhrif sem hafi breytt öllu. Í frumvarpinu kemur fram að þetta hafi verið framkvæmdir fyrir um 3 milljarða kr. Á sama tíma er óskað eftir milljörðum króna til vegaframkvæmda. Það er býsna athyglisvert hvað um er beðið vegna þess milljarður á að fara í að auka umferðaröryggi. Eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Óskað er eftir 1.000 millj. kr. framlagi vegna umferðaröryggis á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða framkvæmdir sem munu bæta verulega umferðaröryggi.“ — Mjög þarft framlag.

Við eigum hins vegar von á að fá fljótlega inn endurskoðaða samgönguáætlun og hefði maður talið eðlilegt að þetta væri þar. En spurningin er þessi: Hve mikið af þessum framkvæmdum hefur verið farið í nú þegar? Var kannski farið í þær framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á meðan framkvæmdum var frestað, m.a. kjördæmi hv. þm. Birkis J. Jónssonar, sem hann taldi að hefði breytt öllu í verðbólguþróun? Hve mikið af þessu verður framkvæmt nú fyrir lok þessa fjárlagaárs, fyrir þennan milljarð sem nú er beðið um fram að áramótum? Sé ekki búið að framkvæma þetta nú þegar og verði þetta ekki framkvæmt, ef við færum algjörlega eftir fjárreiðulögunum, fyrr en búið verður að samþykkja frumvarpið, þá eru þetta framkvæmdir sem á að hefja í desembermánuði. Það eru líklega hálkuvarnir eða eitthvað þess háttar. Allt saman mjög þarft, ekki efast ég um það. En hvað er áætlað að mikið af þessu fari yfir á næsta ár? Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra geti gefið okkur svör um þetta á eftir. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með umgengninni um fjárreiðulögin. Inni í þessu frumvarpi á vitanlega aðeins að hafa það sem verið hefur ófyrirséð á þessu ári. Ég veit ekki hvað var ófyrirséð í þessu.

Hugsanlega hefur samgönguáætlunin verið það gölluð að menn hafi gleymt því að auka umferðaröryggi á þessu svæði. Ekki ætla ég að draga úr því að það er mikilvægt mál. En það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá útskýringar á þessu og fá að vita í hvaða áætlanir liggja fyrir um í hvað nýta eigi þennan milljarð á síðustu mánuðum ársins á þessu svæði. Við þyrftum að fá upplýsingar um það.

Frú forseti. Eins og oft áður kemst maður ekki yfir allt á þeim skamma tíma sem hér gefst. En það vakti sérstaka athygli mína sem fram kemur í því sem við köllum 6. gr. heimildir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heimild 7.12 er til komin vegna þeirrar ákvörðunar ríkisins að kaupa merkilegt ritsafn sr. Ragnars Fjalars Lárussonar, prófasts, og afhenda það Hóladómkirkju að gjöf á 900 ára afmæli skóla og biskupsstóls á Hólum.“

Væntanlega er allt rétt um að um mjög merkilegt ritsafn sé að ræða. En ef ég man rétt, frú forseti, var sagt frá því í fjölmiðlum að í sumar hafi þessi gjöf verið afhent. Nú er óskað eftir heimild fyrir því að framkvæma þessa hluti. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Af hverju er þá a.m.k. ekki upphæðin inni? Menn eru búnir að gefa gjöfina, menn hljóta að vita hvað hún kostaði. Það kemur ekki fram hér. Hvers konar umgengni er þetta, hæstv. ráðherra, um fjárreiðulög? Hvers konar umgengni er þetta eiginlega? Er ekki mál að linni?

Hæstv. ráðherra man kannski hvaða hæstv. ráðherra afhenti þessa merku gjöf en þessi vinnubrögð eru algjörlega fyrir neðan allar hellur.

Ég get haldið áfram. Hér er beðið um 12 millj. kr., auðvitað ekki háa upphæð, til rannsóknarverkefnis sem tengist efnahagsrannsókn. Hvaða skýring skyldi gefin á því í frumvarpinu? Jú, með leyfi forseta, segir hér:

„Farið er fram á 12 millj. kr. framlag til rannsóknarverkefna á sviði skatta-, félags- og velferðarmála.“

Það er ekkert annað. Nákvæmt skal það vera. Nægilegt verkefni, trúi ég, en skýringin er afar sérkennileg. Ég verð að segja, frú forseti, að orðalagið er víða mjög sérkennilegt. Ég veit ekki hvað ég á eiginlega að velja sem sérkennilegasta orðalagið. Ég staldraði aðeins við, í andsvari við hæstv. ráðherra, hestamálin miklu. Ég skil mjög vel að hæstv. ráðherra hafi ekki kunnað nákvæm skil á því sem þar var en þar er á ferðinni eitthvað það sérkennilegasta sem ég hef séð í fjáraukalagafrumvarpi. Við í fjárlaganefndinni mun um fara nákvæmlega í ástæður þessa en eitthvað hefur farið forgörðum.

Undir landbúnaðarráðuneytinu er líka merkileg stofnun sem heitir Landbúnaðarstofnun. Við getum kannski afsakað hina gölluðu áætlunargerð með því að þetta er ný stofnun sem hafi kannski ekki náð tökum á áætlanagerðinni. En það er augljóst að þar hafa menn ekki áttað sig á því hvað innréttingar og áhöld og tölvubúnaður kostaði. Menn hafa ekki áttað sig á því að greiða þyrfti biðlaun ef menn færu ekki í störf við stofnunina sem voru áður hjá þeim stofnunum sem þar voru sameinaðar og menn hafa ekki lesið dóma í Hæstarétti frá árinu 2005, þegar menn voru að undirbúa áætlun fyrir árið 2006 þannig að víða er vandinn.

Frú forseti. Að lokum verð ég að nefna það orðalag sem líklega er með því næstum því það sérkennilegasta. Með leyfi forseta, segir hér hjá iðnaðarráðuneytinu:

„Nýsköpun og markaðsmál. Lagt er til að veitt verði 25 millj. kr. framlag til leiðréttingar á óskiptum lið iðnaðarráðuneytisins til samræmis við þau verkefni sem liðnum er ætlað að fjármagna.“

Frú forseti. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra geti upplýst okkur nánar um hvað hér er á ferðinni eða veiti iðnaðarráðuneyti verðlaun fyrir sérlega skýrt orðalag.