133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:12]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að fagna því að við eigum von á lokafjárlögum á næstu dögum. Það er til bóta mjög og rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta misfórst á síðasta ári. Batnandi hæstv. ráðherra er best að lifa. Vonum auðvitað að það gangi eftir.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að við höfum lagt gífurlega mikla áherslu á það að átta okkur á stöðu stofnana. Í ríkisreikningi getum við séð hana að hluta en þar er ekki það sem raunverulega færist yfir áramót. Við verðum þá að spá í hvað verður í lokafjárlögunum vegna þess að það hefur ekki alltaf verið fullkomið samræmi. Við gerum líka ráð fyrir því að þannig verði það nú.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann er ekki reiðubúinn til að gefa yfirlýsingu um að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að fjárlaganefnd geti fengið áætlaða stöðu stofnana um næstu áramót, a.m.k. þeirra sem á undanförnum árum hafa verið utan fjárlaga, þ.e. í báðar áttir, bæði þeirra sem hafa farið yfir og þeirra sem hafa safnað inneignum. Getur hæstv. ráðherra komið því til fjárlaganefndarinnar og skapað þar með grundvöll til að fjárlaganefnd geti sinnt því mikilvæga hlutverki sem hæstv. ráðherra nefndi fyrr í dag, þ.e. varðandi mat á útgjaldaþörf? Það er ekki hægt nema þessar upplýsingar liggi fyrir. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra komi með yfirlýsingu um að hann tryggi að ráðuneyti hans muni safna slíkum upplýsingum fyrir nefndina og koma til skila.