133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:17]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér í dag frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006. Ég fagna því eins og aðrir ræðumenn að það komi snemma fram þannig að hægt sé að ræða það í tengslum við frumvarp til fjárlaga ársins 2007.

Ég vil sömuleiðis fagna því sem fram kom í máli fjármálaráðherra um að lokafjárlög ársins 2005 séu væntanleg og fjárlaganefnd geti þá rætt þessi þrjú frumvörp í tengslum hvert við annað.

Frú forseti. Frumvarpið ber vott um þann mikla uppgang sem ríkir í samfélaginu, tekjur eru ríflega 40 milljörðum kr. hærri en áætlað var í fjárlögum 2006 en um leið eru gjöldin 11 milljörðum kr. meiri. Tekjuafgangur er því áætlaður 49 milljarðar króna á árinu 2006 í stað 19,6 milljarða.

Einkum er ánægjulegt að sjá að kaupmáttaraukningin er 5,7% en í áætlun síðasta árs og í fjárlögum 2006 var gert ráð fyrir að hún yrði 2,7%. Mikilvægt er að halda því til haga.

Í frumvarpinu er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs ársins 2006 verði auknar um 14,3 milljarða kr. og er þetta vegna óska ráðuneyta um aukna fjárþörf verkefna stofnana vegna frávika frá heimildum fjárlaga. Í þessu felast einnig ófyrirséð útgjöld og ber frumvarpið þess merki sérstaklega hvað varðar varnarmálin og einstaka mál, t.d. er hægt að nefna hér viðbúnað vegna fuglaflensu.

Frú forseti. Ég vil kannski fá að draga hérna fram í umræðunni einstaka fjárlagaliði og einstaka verkefni. En þar ber kannski hæst 1,9 milljarða kr. framlag vegna hækkana í lífeyristryggingum almannatrygginga í kjölfar samkomulags ríkisstjórnarinnar sem gert var fyrr í sumar við Landssamband eldri borgara. Það hefur einnig áhrif á kjör öryrkja.

Ég tel það mjög mikilvægt að ríkisstjórnin hafi til viðbótar við þau skref sem hún hefur tekið á kjörtímabilinu, tekið þetta skref sem kynnt var í sumar og sjást strax merki um það í frumvarpi til fjáraukalaga, um leið og við sjáum þess glögglega merki í því frumvarpi til fjárlaga sem liggur nú fyrir þinginu. Það er afar mikilvægt að stíga áfram skref til hækkunar bóta lífeyristrygginga, til lækkunar skerðingar lífeyristrygginga og frítekjumarksins eins og gert er í því samkomulagi og í þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir.

Ég vil einnig draga sérstaklega fram 1,8 milljarða kr. hækkun á framlögum til samgönguráðuneytisins, eins og aðrir ræðumenn hafa einnig gert hér í dag, og ég fagna sérstaklega þeim þúsund milljónum, 1 milljarði kr. sem verja á sérstaklega vegna framkvæmda hér í höfuðborginni til að bæta öryggi í umferðinni. Umræður í sumar, þarfar umræður um mikinn ofsaakstur og þau hræðilegu slys sem því miður hafa orðið í sumar og á síðustu árum sýna okkur að við þurfum að gera enn betur en gert hefur verið í þessum málum og því fagna ég sérstaklega að það skuli vera dregið fram í þessu frumvarpi.

Ég fagna ekki síður því 500 millj. kr. framlagi sem renna á í Fjarskiptasjóð en það er eitt af þeim liðum sem felast í því að við sölu Símans gafst ríkisstjórninni einstakt færi á að fjárfesta í verkefnum sem við hefðum ef til vill annars ekki getað gert og er þetta eitt af þeim.

Í fyrsta lagi er þarna um að ræða uppbyggingu GSM-senda víða um land. En ég er eins og aðrir landsmenn orðin þreytt á því og finnst í raun óþolandi að ekki sé GSM-símsamband á öllum þjóðvegum landsins.

Í öðru lagi er þetta með dreifingu sjónvarps- og útvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins út á miðin og til strjálbýlla svæða landsins og er það einnig afar mikilvægt mál.

Síðast en ekki síst er hér um að ræða háhraðatengingarnar. Við vitum það vel að bæði vegna menntamála víða á landsbyggðinni og ekki síst vegna atvinnuuppbyggingarinnar er afar mikilvægt að landsmenn allir eigi þess kost að hafa háhraðatengingar sem nú er bætt úr með þessu máli. Ég hlakka til að fylgjast með framvindu þess.

Frú forseti. Ég vil koma örlítið inn á menntamálaráðuneytið og menntamálin. Ég fagna því að í þessu frumvarpi sjást þess strax merki að menntamálaráðherra í kjölfar viðræðna við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er að taka hér upp það mikilvæga mál að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Við höfum heyrt það í umræðum um stöðu Landspítala – háskólasjúkrahúss og annarra heilbrigðisstofnana að það er afar mikilvægt að bregðast við þeim skorti sem ríkt hefur á hjúkrunarfræðingum. Með þessu frumvarpi er verið að bregðast við honum með 9,1 millj. kr. framlagi sem og ég nefndi áðan og finnst mér það fagnaðarefni og vona ég að þetta gangi hratt og vel fyrir sig.

Einnig vil ég draga fram hversu gott er að brugðist skuli vera við vanda Háskólans á Akureyri með 60 millj. kr. hækkun, annars vegar vegna fjölgunar nemenda og hins vegar vegna húsaleigusamnings í Borgum.

Þá er einnig rétt að draga hérna fram 120 millj. kr. sem leggja á í menningarsamninga víða um land. En eins og við vitum hér á Alþingi hafa verið gerðir slíkir samningar á Akureyri, Austurlandi og Vesturlandi. Ég held að hið blómlega starf sem menningarsamningum fylgir hafi sannað og sýnt að brýnt sé að þarna sé farsælt samstarf ríkis og sveitarfélaga. Ég vona að við getum aukið enn frekar við þessi málefni á næstunni.

Frú forseti. Ég vil líka nefna eitt mál undir dómsmálaráðuneytinu á sviði dómsmála. Það er aukaframlag til sýslumannsins á Seyðisfirði. Það er afar brýnt að við gerum okkur grein fyrir því að í baráttunni gegn fíkniefnavánni er mikilvægt að löggæslan og tollgæslan sé þannig í stakk búin til að hún geti gripið til viðeigandi ráðstafana. Í þessu frumvarpi gerum við ráð fyrir framlagi til sýslumannsins á Seyðisfirði til að endurnýja og kaupa tæki til tollskoðunar, bæði við Seyðisfjarðarhöfn og á Egilsstaðaflugvelli.

Seyðisfjörður tekur á móti mörgum tugum eða hundruðum ferðamanna í viku hverri. Það er afar mikilvægt að sýslumannsembættið sé viðbúið því að eðlileg tollskoðun geti farið fram og einnig á Egilsstaðaflugvelli. Það er mjög gott að sjá að brugðist sé við þessu í frumvarpinu.

Jafnframt finnst mér mikilvægt að nefna hér að ég fagna því að fram skuli vera komin sérstök tillaga um 10 millj. kr. á framkvæmdum vegna undirbúningsframkvæmda við Litla Hraun og nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Því ég held að það sé mikilvægt að koma þessum fangelsismálum í ákveðinn farveg.

Að lokum vil ég segja að það er mikilvægt eins og rætt hefur verið um í dag að við vöndum gerð fjárlaga og framkvæmd þeirra. Það er kannski eitt sem ég sakna mest að sjá ekki í þessu frumvarpi til fjáraukalaga en það er að við ræðum og tökum hér upp stöðu margra heilbrigðisstofnana og dvalar- og hjúkrunarheimila um allt land. Ég vonast til þess að fjárlaganefndin sýni þar frumkvæði og dug og taki sérstaklega á hallarekstri margra þeirra stofnana. Það verður að ríkja agi hvað varðar framkvæmd fjárlaga. Ég treysti fjárlaganefndinni og þar fremstum í flokki formanni fjárlaganefndar Birki Jóni Jónssyni til að taka sérstaklega á þessu máli.