133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:26]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið erum við að ræða hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006. Í stuttu andsvari áðan átti ég smá orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um tekjuhlið frumvarpsins til fjáraukalaga. En eins og fram kom í því andsvari hafa tekjur ríkissjóðs aukist um 40,4 milljarða kr. umfram það sem ráð var fyrir gert í fjárlögum.

Þetta eru ekki litlir fjármunir og þetta er mikil skekkja í áætlun á tekjuhlið fjárlaga. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort ekki væri full ástæða til að bregðast við í fjáraukalögum og með ráðstöfunum á miðju fjárlagaári þegar stefndi í að tekjuhlið fjárlaga væri að fara svona langt umfram það sem ráð var fyrir gert. Því við þekkjum öll til hvaða ráða er gripið þegar útgjaldahlið fjárlaga stefnir í óefni. Þá fara menn að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að halda útgjöldunum innan þess fjárlagaramma sem búið er að setja. Í mínum huga er full ástæða til og ekkert síður innan skynsamlegra marka að hæstv. fjármálaráðherra með sínu fólki velti því fyrir sér, þegar maður sér að tekjurnar eru að fara langt upp fyrir það sem búið var að gera ráð fyrir, hvort ekki sé ástæða til þess í stað þess að taka 40,4 milljarða í viðbót inn í ríkiskassann. Væri kannski ástæða til að breyta á einhvern hátt skattheimtunni þannig að tekjurnar sem inn í ríkiskassann kæmu væru kannski nær því sem gert væri ráð fyrir í forsendum fjárlaga?

Gullkvörnin sem malar peninga inn í ríkissjóð hefur nú aldeilis bætt við sig. Enda staðfesti hæstv. ráðherra það sem ég spurði hann um að skattar sem hlutfall af landsframleiðslu hafa hækkað verulega frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlögum eða úr 27,3% á landsframleiðslu í 31%. Þetta er ekkert lítið. Þetta eru 40,4 milljarðar kr. Og fyrst hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra eru báðir hér í salnum og eru nýbúnir að kynna hugmyndir um lækkun á matarverði, ekki seinna vænna, væri þá ekki ástæða til að skoða það í fullri alvöru að þessar ráðstafanir til að lækka matarverð fyrir fjölskyldurnar í landinu hefðu komið á núna 1. nóvember á þessu ári? Hefði ekki verið ástæða til í ljósi þess að hér er um 40,4 milljarða að ræða sem koma til viðbótar í ríkiskassann að taka þær inn í fjáraukalagafrumvarpið og minnka aðeins þá rosalegu skattheimtu sem ríkissjóður stendur fyrir á fjölskyldur landsins? Hefði ekki verið full ástæða til þess? Miðað við forsendurnar sem þeir sjálfir gefa í tillögum sínum sýnist mér að það hefði kostað í kringum 2 milljarða kr. Nóvember og desember. Kannski ekki einu sinni það. Rúman milljarð. Um milljarð hefði það kostað þegar maður fer yfir þeirra eigin forsendur. Hefði nú ekki verið stórmannlegra af þeim hæstv. ráðherrum að gera tillögur um að gera þetta núna strax í ljósi þess að ríkissjóður er að fitna sem aldrei fyrr?

Hefði ekki verið nær að gera ráð fyrir því í umræðu um fjárlög að setja þar inn að þessi lækkun kæmi inn á fyrstu þrem mánuðum ársins sem fram undan er, ársins 2007 einnig. Það hefði kannski kostað 1,5 milljarða til viðbótar. Af hverju eru hæstv. ráðherrar svona tregir til þess að draga úr þeirri miklu skattheimtu sem er í landinu? Það liggur fyrir svart á hvítu í fjáraukalögunum að skattheimtan eykst úr því að vera 27,3% af landsframleiðslu, sem frekar hefur vaxið en hitt, í það að vera 31%. Er ekki rétt að hæstv. ráðherra svari því þá hvort þeir hafi ekki velt fyrir sér þeim möguleika að reyna að halda tekjuhlið fjárlaga aðeins nær því sem fjárlög gerðu ráð fyrir með því að skila til baka til fjölskyldnanna í landinu einhverju af því sem búið er að taka af þeim með offorsi á þessu ári?

Fjáraukalögin eru, eins og oft hefur komið fram, til að gera ráð fyrir óvæntum útgjöldum, til að jafna halla sem komið hefur fram og ekki hefur ráðist við og eðlilegar skýringar eru á. Því velti ég fyrir mér þegar ég tók til lestrar frumvarp til fjáraukalaga hvort ég fyndi þar ekki myndarlega upphæð til að bæta rekstrarhalla sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli, því að ég mundi eftir því að þegar ég hafði lesið skýrslu ríkisendurskoðanda um framkvæmd fjárlaga ársins 2005, sem gefin var út í júlí á þessu ári á svipuðum tíma og verið var að vinna þessi lög til fjárauka, að ríkisendurskoðandi hafi tekið sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli sérstaklega út í þessari úttekt sinni, þessari skýrslu, vegna þess að hann segir að þar hafi safnast upp mikill halli af rekstri upp á 98 millj. kr. á þremur árum. En ríkisendurskoðandi segir líka að miðað við fyrirhugaða aukningu umsvifa hjá embættinu sé ljóst að nauðsynlegt sé að bæta verulega við fjárheimildir ársins 2006 sé ætlunin að standa undir þeirri starfsemi sem í gangi var á flugvellinum. Ríkisendurskoðandi segir líka að ef ekki komi til aukningar á fjárheimildum á þessu ári verði nauðsynlegt að draga umtalsvert saman í þjónustu sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli en bætir síðan við að engin áform séu uppi um slíkt. Sem sagt utanríkisráðuneytið, sem enn fer með sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli, hæstv. fjármálaráðherra og aðrir sem ráða ríkisfjármálum hafa komið þeim skilaboðum til sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli að hann skuli halda áfram að reka embætti sitt á þann hátt sem gert hefur verið og mæta þeim auknu umsvifum sem óhjákvæmilega hafa orðið á Keflavíkurflugvelli vegna mikillar aukningar umferðar á flugvellinum og með þeirri breytingu sem orðið hefur á flugvellinum við brottför varnarliðsins þaðan. Þessir hæstv. ráðherrar segja við sýslumanninn: Þú verður að sinna allri þessari þjónustu, þú verður að mæta þessari aukningu og bæta við tönn. En það kemur ekki króna til embættisins til að mæta þessu.

Í ljósi þess að í niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, sem ég ætla að leyfa mér að lesa hér á eftir, kemur fram að þessi halli á sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli sé eingöngu til kominn vegna aukningar á verkefnum sem ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hafa sagt að sinna þurfi, þá hélt maður satt að segja að þeir sýndu þó þá stórmennsku í fjáraukalagafrumvarpi að þar kæmi eitthvað til að bæta þennan halla.

Ríkisendurskoðandi segir í skýrslu sinni, með leyfi forseta:

„Vegna mikillar fjölgunar ferðamanna og aukins innflutnings hefur umfang verkefna embættis sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli aukist verulega á undanförnum árum. Ljóst er að við fjárlagagerð hefur ekki verið gert ráð fyrir svo mikilli aukningu. Þar sem embættið fékk ekki viðbótarfjárheimild til að mæta þessum auknu verkefnum var stjórnendum þess skylt að draga úr þjónustunni, eða a.m.k. að auka hana ekki með innleiðingu nýrra verkefna. Það liggur hins vegar fyrir að aukin umsvif embættisins hafa verið gerð með fullri vitund og vilja utanríkisráðuneytisins sem ekki hefur lagt fyrir forstöðumann að draga umtalsvert saman í starfseminni. Sé það mat stjórnvalda að vöxtur embættisins sé eðlilegur, með tilliti til aukinna og nýrra verkefna, ber að tryggja meiri fjárheimildir í fjárlögum. Mikilvægt er“ — segir ríkisendurskoðandi að lokum — „að þetta mál verði skoðað og niðurstaða fengin í tengslum við breytingar sem standa yfir á skipulagi og starfsemi sýslumannsembætta í landinu.“

Í ljósi þessara orða ríkisendurskoðanda átti ég von á að í þessu frumvarpi til fjáraukalaga yrði tekið á þeim halla sem myndast hefur hjá embættinu á Keflavíkurflugvelli, a.m.k. á hluta hallans, en síðan sæi maður í fjárlögum hæstv. fjármálaráðherra fyrir árið 2007 að þar væri gert ráð fyrir þessum auknu umsvifum sem eru á Keflavíkurflugvelli. En ef fjárlagafrumvarpinu er flett, af því að maður veltir fyrir sér hvernig þetta gangi fyrir sig í fjármálaráðuneytinu, hvernig menn standi að áætlunargerð og hvernig menn mæti því þegar vitlaust er áætlað, þá fer maður í gegnum allan ferilinn, fyrst fjárlögin, þ.e. skoðun og athugasemdir ríkisendurskoðanda, þá fjáraukalögin og loks fjárlögin fyrir næsta ár þar á eftir, en það er ekki króna til viðbótar. Það er ekki króna til viðbótar til sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sem heitir reyndar lögreglustjórinn á Suðurnesjum eftir áramót, því að verið er að sameina sýslumannsembættin á Keflavíkurflugvelli og í Keflavík undir einn hatt sem er lögreglustjórinn á Suðurnesjum.

Þegar maður fer í gegnum fjárlögin eins og þau liggja fyrir núna þá er ekki bætt krónu við það sem þessi tvö embætti fengu áður nema að gert er ráð fyrir að við bætist launa- og verðlagsbætur, þó það nú væri. En svo er meira að segja sett á þetta nýja embætti 13 millj. kr. hagræðingarkrafa án þess að bæta hallann sem ríkisendurskoðandi hefur sagt að verði að bæta og eigi að bæta á þessu ári. Maður skilur þetta ekki þó að maður fari svona í gegnum þetta, taki eina stofnun út eins og ég gerði núna til að reyna að skilja hvernig vélin í fjármálaráðuneytinu vinnur, reyni að skilja að það sé á einhverjum vitrænum forsendum sem menn fá áætlun og lagi sínar áætlanir, en ég skil það ekki eftir þetta. Það er ekki að sjá að það skipti neinu máli hvað ríkisendurskoðandi segir. Þó að forstöðumönnum hafi verið sagt að mæta auknum umsvifum og hafa ekki áhyggjur af peningunum þá gerist ekki neitt.

Hvað gerist eftir áramótin þegar búið verður að sameina þessi tvö embætti í lögreglustjórann á Suðurnesjum, þegar öll löggæslustarfsemi á Suðurnesjum og öll starfsemi sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli verða komin undir einn hatt? Á þá að gera kröfu um að dregið verði verulega úr starfsemi og almennri löggæslu á Suðurnesjum til að mæta þessum uppsafnaða halla sem er þriggja ára gamall, hefur safnast upp á þremur árum? Hvers konar rugl og vitleysa er þetta?

Ég vona satt að segja að hæstv. fjármálaráðherra svari því á eftir hvernig á þessu standi og ég reikna með því að hæstv. fjármálaráðherra svari því líka til að þetta hljóti að koma inn á milli umræðna um fjáraukalögin, að svona augljósar vitleysur verði leiðréttar, því að ekki er hægt að bjóða forstöðumönnum á vegum ríkisins upp á svona vitleysu ár eftir ár.

Til að sjá aðeins hvað verið er að gera með fjáraukalögum er oft gaman að velta fyrir sér og skoða tölur sem fram koma í frumvarpinu og þegar ég fletti upp á blaðsíðu 62 til þess að skoða undir utanríkisráðuneytinu hvort verið gæti að þar kæmu einhverjar upphæðir til sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli, sem ég fann náttúrlega ekki því að þær eru ekki þar, þá sá ég á næstu blaðsíðu að þar er liður undir landbúnaðarráðuneyti sem heitir Ýmis verkefni. Þar segir:

„Farið er fram á 330 millj. kr. framlag til að styrkja byggingu reiðhalla, reiðskemma og reiðskála sem reistir verða í samvinnu við hestamannafélög innan Landssambands hestamannafélaga og sveitarfélög.“

330 millj. kr. til að reisa reiðskemmur. Það getur vel verið að það sé í fínu lagi — bara fínt að byggja yfir íslenska hestinn svo hann þurfi ekki að hrekjast úti þegar verið er að temja hann á vetrum heldur sé hægt að temja hann inni — þegar til eru nógir peningar í ríkiskassanum. Fínt, byggjum bara yfir íslenska hestinn, aumingjann. En hver er forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni? Hvað höfum við heyrt undanfarna daga þegar verið er að kalla eftir örfáum tugum milljóna til þess að sinna verkefnum þar sem manneskjur eiga í hlut en það er ekki hægt? Veltum því fyrir okkur núna í samhengi við það sem við höfum verið að heyra um hvað ríkisstjórnin ætlar að gera, 330 milljónir til að byggja reiðskemmur. Hvað er verið að gera varðandi BUGL þar sem fárveikum börnum er vísað frá á hverjum einasta degi þegar komið er með þau á sjúkrahús? Hvað er að gerast hjá SÁÁ? Hvað er að gerast á Landspítalanum? Hvað er að gerast á heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið? 330 millj. kr. framlag mundi duga til þess að hafa 24 tíma opnun á skurðstofu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að gera í átta eða níu ár og þá þyrfti ekki að keyra fárveikt fólk með sjúkrabíl upp á líf og dauða til Reykjavíkur. Hvað er að slíkri ríkisstjórn sem raðar svona, forgangsraðar svona í eins miklu góðæri og við vorum að horfa á hér með 40,4 milljarða í auknar tekjur? 330 milljónir þannig að hægt sé að temja íslenska hestinn innan dyra á sama tíma og það eru upp í fimm aldraðir í sama herbergi á hjúkrunarheimilum landsins. Heyr á endemi. Hvers konar forgangsröðun þetta er hjá ríkisstjórninni? Er ekki kominn tími til að koma þessari ríkisstjórn frá sem leggur svona lagað fyrir okkur? Ég held að allir hljóti að vera sammála um það.

Eitt vakti athygli mína í fjáraukalögum, tala sem svo sem ég fagnaði að sjá, 120 millj. kr. viðbótarframlag til að gera menningarsamninga við sveitarfélögin. Kannski átti þessi tala ekki heima í fjáraukalögum heldur í fjárlögum næsta árs ef menn hefðu viljað bæta við til að geta gert menningarsamninga við öll svæði landsins. En ég vona þá að hæstv. fjármálaráðherra svari mér því, þar sem þetta er í fjáraukalögum og fjármunir sem á að nota á þessu ári, hvort hér sé um að ræða áætlun um viðbótarmenningarsamninga við þau svæði sem ekki þegar hafa fengið menningarsamninga þannig að þessir fjármunir verði notaðir í slíka samninga á þessu ári, því að í fjáraukalögum hefur þetta ekkert að gera nema að annaðhvort sé búið að eyða þeim eða að það eigi að eyða þeim fyrir áramót. Reynslan af þessum samningum er afskaplega góð og ég fagna því að það sé loksins kominn vilji til að gera fleiri samninga en við sveitarfélögin á Austurlandi, á Vesturlandi og við Akureyri. Nú hljóta Suðurland og Vesturland að bætast við. Ég fagna því en óska skýringa og svara við því hvað þetta er að gera í fjáraukalögum og einnig skýringa á því hvort sveitarfélög eins og á Suðurlandi, sem væntanlega hafa hafið viðræður um menningarsamninga eða munu óska eftir viðræðum um þá á næstu vikum, geti vænst þess að fá slíkan samning fyrir áramót og framlag á þessu ári til að sinna menningarsamningnum.

Ég tek undir með félaga mínum, hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, þegar hann spurði ráðherra út í milljarðinn sem óskað var eftir til að framkvæma fyrir á þessu ári, ef ekki er búið að framkvæma fyrir hann. Ég tók eftir að hæstv. ráðherra svaraði ekki um hvaða framkvæmdir væri að ræða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins til að tryggja aukið umferðaröryggi, hvort búið sé að eyða þessum fjármunum, hvort þeim var þá eytt meðan aðrar framkvæmdir úti á landi voru frystar eða hvort til standi að eyða þeim fyrir áramót og þá í hvað.

Það síðasta sem ég hafði hug á að spyrja um er undir forsætisráðuneytinu og það er 20 millj. kr. framlag til að stofna hlutafélag um varnarliðseignir. Auðvitað þarf að leggja nýju hlutafélagi til hlutafé. En 20 millj. kr. til að stofna svona félag og koma því af stað, ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra útskýri af hverju 20 milljónir, hvað hægt sé að hans mati að vinna fyrir 20 milljónir í eins viðamiklu verkefni og þarna liggur fyrir eða hvort hugmyndin sé sú að þetta nýja félag verði loksins stofnað — mér skilst að ekki sé búið að stofna það enn þá — og það byrji á að slá lán út á eignirnar sem við vorum að fá frá varnarliðinu, er það hugmyndin? Því að fyrir 20 millj. kr. rekur þetta félag sig ekki í margar vikur, fyrir 20 millj. kr. stendur þetta félag ekki fyrir neinni raunverulegri hugmyndavinnu um það hvað hægt sé að gera við eignirnar sem þarna eru og hefur í raun afskaplega litlum fjármunum úr að spila til þess að sinna því verkefni sem það er stofnað til.

Að endingu vil ég segja, herra forseti, að ég vona að hæstv. fjármálaráðherra svari einhverjum af þeim spurningum sem hér voru fram lagðar. Þær eru vísvitandi afskaplega einfaldar og um bein, ákveðin málefni vegna þess að það hefur verið háttur hæstv. fjármálaráðherra, þegar maður spyr um stærri myndina, að koma hér upp og oft og tíðum hálfpartinn rugla og þrugla út í myrkrið þannig að þegar upp er staðið hefur maður ekki fengið nein svör. Spurningarnar sem ég setti hér fram eru því tiltölulega einfaldaðar og meitlaðar og ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim.