133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:17]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vissi að hv. þingmaður mundi ekki bregðast í málflutningi sínum í þessu efni. Hann er vel heima í þeim efnum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru auðvitað hin samfélagslegu áhrif sem er hin stóra ástæða fyrir framkvæmdunum. Þess vegna er afar brýnt að opinberir aðilar og ríkisvaldið átti sig á því hvert hlutverk þeirra er í þeim efnum.

Ég veit að við hv. þingmaður gætum haldið áfram að telja upp verkefni. Þetta er vissulega stærsta verkefnið en samt sem áður fyrsta skrefið í áframhaldandi jarðgangagerð fyrir austan. Sú hugmynd sem kölluð er samgöng er það sem koma skal.

En það er fleira í grunnþjónustunni sem er afar mikilvægt að opinberir aðilar komi inn á. Það er svolítið sérkennilegt miðað við þá stöðu sem við þekkjum eystra í opinberri þjónustu, að það skuli ekki vera í fjáraukalagafrumvarpinu ákveðnir þættir sem við hefðum getað sagt að hafi verið ófyrirséðir, þó ég hafi nú efasemdir um að þeir hafi verið ófyrirséðir þegar grannt er skoðað. En það hefði að minnsta kosti verið hægt að færa rök fyrir því að setja inn í fjárlagafrumvarpið fjármagn m.a. til Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Það þarf einnig að gera átak í menntamálum. Við vorum að tala um samgöngurnar. Það eru ekki bara jarðgöngin. Það eru fleiri kaflar hreinlega í nágrenni við álverið sem eru þeirrar gerðar, eins og yfir Hólmahálsinn, sem ekki eru boðlegir. Þarna þarf náttúrlega að vinna að framkvæmdum.

Það hefði verið gleðilegt að sjá það í fjáraukalagafrumvarpinu að ríkisvaldið áttaði sig á hlutverki sínu við að tryggja að hin samfélagslegu áhrif verði sem allra mest og sem jákvæðust.