133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:19]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni um þessi efni. Úr því að umræðurnar berast inn á þetta svið er vert að geta þess að þetta litla sveitarfélag er búið að fjárfesta í innviðum samfélagsins vegna þessara framkvæmda fyrir um það bil 3,2 milljarða. (BJJ: Það er flott.) Það er flott, segir formaður fjárlaganefndar. Það er alveg rétt. Það er mjög vel af sér vikið.

En aðkoma ríkisins er mjög smá í hlutfalli við það sem sveitarsjóður hefur gert. Aðkoma ríkisins er að framkvæmdum við fjórðungssjúkrahúsið, það verður að halda því til haga sem rétt er, og að höfninni og styrking er á sýslumannsembættinu á Eskifirði. En þetta eru smáar fjárhæðir miðað við það sem sveitarsjóður hlutfallslega er að setja í þessi mál.

Sveitarsjóður er búinn að koma málum þannig fyrir að allar skólabyggingar eru fyrir hendi fyrir aukningu á þessum þremur stöðum, Norðfirði, Eskifirði og Reyðarfirði. Allar leikskólabyggingar eru til og gríðarlega mikil umsvif eru við uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir fleira fólk sem kemur til vinnu á þessu svæði.

Þess vegna held ég að það sé siðferðislegt mál fyrir þingið að fylgja þessu eftir þannig að samfélagsleg áhrif framkvæmdanna styrkist fyrir sveitarfélagið. Og sveitarsjóður Fjarðabyggðar á nokkra hönk upp í bakið á hv. Alþingi vegna þess að staðreyndin er sú að þetta er eina svæðið sem sameinaðist eftir kosningar um sameiningu við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Í þann pakka var lofað 1,6 milljörðum og það hlýtur að koma til tekna þegar við tölum um samgöngumál á þessu svæði.