133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

neyslustaðall.

102. mál
[13:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í desember 2004 lagði ég fram fyrirspurn til þáverandi forsætisráðherra um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að framfylgja þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi árið 2001 um gerð neyslustaðals. Þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, svaraði því til að viðskiptaráðherra mundi skipa starfshóp sem ætti að hafa umsjón með gerð forkönnunar að framkvæmd slíkrar neysluviðmiðunar. Einnig átti að meta hvaða kostnaður kynni að fylgja því að viðhalda slíkum grunni þannig að hann héldi áfram að gefa raunhæfa mynd varðandi þá þætti framfærslukostnaðar sem eðlilegt væri að hafa í neyslugrunni. Ríkisstjórnin hafði þá veitt 2 millj. til þessa verkefnis.

Það verður að segjast að þetta hefur tekið mjög langan tíma hjá ríkisstjórninni frá því að Alþingi samþykkti árið 2001, fyrir fimm árum, þessa þingsályktun um gerð neyslustaðals. Lengi hefur slík neysluviðmiðun verið við lýði í nágrannalöndum okkar en ákvarðanir út af fjárhæðum bóta og styrkja í velferðarkerfinu og meðlagsgreiðslur taka mið af slíkum neyslugrunni. Neysluviðmiðanir eru einnig notaðar þar þegar teknar eru ákvarðanir um lánveitingar úr opinberum sjóðum, svo sem lánasjóðum námsmanna og íbúðalánasjóðum og við mat á greiðslugetu við innheimtu vangoldinna gjalda. Þingsályktunartillagan sem samþykkt var gekk einmitt út á að samræma slíkar neysluviðmiðanir hér á landi og taka upp neyslustaðal líkt og gert hefur verið víða.

Hér á landi er þetta allt í einum hrærigraut. Hið opinbera tekur mið af a.m.k. fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsaðstoðar og styrkveitinga. Má þar nefna tryggingakerfi, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóð og lánastofnanir auk þess sem Hagstofan gerir reglulegar neyslukannanir. Allur gangur virðist vera á því að hve miklu leyti kannanir liggja að baki nauðsynlegum framfærslukostnaði og mikill munur er á því neysluviðmiði sem lagt er til grundvallar hér á landi en eins og ég sagði eru margir mismunandi framfærslugrunnar í gangi. Það er því afar mikilvægt að þróaður verði einn samræmdur neyslustaðall, eitt almennt neysluviðmið sem gildi hér og opinberir aðilar byggi á við ákvarðanir sem tengjast framfærslu, hvers konar opinberum bótum, styrkjum og lánum sem byggjast á framfærsluþörf eða taka mið af tekjum. Þegar fyrrverandi forsætisráðherra svaraði fyrirspurn minni í desember 2004, þar sem hann kynnti að ráðist yrði í gerð forkönnunar á framkvæmd neyslustaðals, sagði hann að starfshópur sem fara ætti í verkið mundi skila skýrslu til viðskiptaráðherra eigi síðar en 31. desember 2005. Nú er spurt í októbermánuði 2006:

Má vænta þess að frumvarp um gerð neyslustaðals hérlendis verði lagt fram á yfirstandandi þingi? Er fyrirhugað að neyslustaðall nái til allra opinberra aðila sem byggja bætur, lán, styrki eða aðrar greiðslur á neysluviðmiðum? Hver er kostnaðurinn við gerð slíks neyslustaðals og hvað má áætla að það kosti að viðhalda honum?