133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

staðan á viðskiptabankamarkaði.

107. mál
[13:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í ágúst sl. kynnti Samkeppniseftirlitið stöðuna á viðskiptabankamarkaði í tengslum við könnun norrænna samkeppniseftirlita sem gerð hafði verið og áherslur eftirlitsins um hvernig taka ætti m.a. á samþjöppun á íslenskum bankamarkaði.

Í skýrslunni kemur fram að samþjöppun á íslenskum bankamarkaði sé mjög mikil, skortur á samkeppni í þjónustu banka skaði neytendur, vaxtamunur hér á landi sé meiri en annars staðar, aðgangshindranir að greiðslukerfum bankanna séu miklar og bent er á einokun á greiðslukerfum með sameiginlegu eignarhaldi banka og sparisjóða á greiðslukortafyrirtækjum. Hreyfanleiki viðskipta sé lítill, m.a. vegna skilyrða og aðgangshindrana sem bankarnir setji viðskiptavinum sínum. Ætla má að full ástæða sé til að grípa til aðgerða eftir slíkan áfellisdóm yfir bankakerfinu enda hefur Samkeppniseftirlitið beint tilmælum til ríkisstjórnarinnar og eftirlitsaðila um að gripið verði til aðgerða til að draga úr samþjöppun og bæta þjónustu við viðskiptavini bankanna. Samkeppniseftirlitið leggur til að eignarhald fárra á greiðslukerfunum verði brotið upp og kallar eftir aðskilnaði á milli eignarhalds og stjórnunar á greiðslumiðlunarkerfum. Samkeppniseftirlitið kallar eftir minni kostnaði neytenda við að færa þjónustu sína á milli banka. Það leggur áherslu á niðurfellingu stimpilgjalda, afnám uppgreiðslu gjalda af lánum og takmörkun á kröfum um samtvinnun þjónustu hjá bönkunum.

Ég hef fullan hug á því að heyra hvernig nýr viðskiptaráðherra bregst við þessum tillögum Samkeppniseftirlitsins og hvort eitthvað sé í undirbúningi af hálfu hæstv. ráðherra til að bregðast við þessum hugmyndum og tillögum svo draga megi úr samþjöppun á bankamarkaði. Það er alveg skelfilegt hvernig staðan er að því er varðar bankakerfið. Það er ekki mikil samkeppni í þjónustu bankanna. Bankarnir setja ákveðin skilyrði fyrir hagstæðum lánum til fólks, eins og íbúðalánum og fleira, og ef viðskiptavinirnir vilja t.d. færa viðskipti sín annað er erfitt að losna úr þeim fjötrum. Þjónustutekjur og náttúrlega vaxtatekjur bankanna eru alveg hrikalegar og maður hefði haldið að hægt væri að lækka þessi gjöld miðað við þær gífurlegu tekjur sem bankarnir hafa. Eins og við þekkjum hefur orðið tvöföldun á vaxta- og þjónustutekjum bankanna. Þær jukust úr 54 milljörðum í 110 milljarða á fyrstu sex mánuðum þessa árs samanborið við sex mánuði fyrra árs. Ég spyr hæstv. ráðherra líka sérstaklega um stimpilgjaldið og uppgreiðslugjaldið sem eru afar erfið, stimpilgjöldin fyrir fyrirtækin og uppgreiðslugjöldin fyrir einstaklinga, og eins stimpilgjaldið. Þess vegna spyr ég sérstaklega um þessa þætti, virðulegi forseti.