133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

lánveitingar Íbúðalánasjóðs.

105. mál
[13:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég býð hæstv. félagsmálaráðherra velkominn í stól félagsmálaráðherra og vona að við getum átt ágæta samvinnu á þinginu. Ástæða þeirra fyrirspurna sem ég legg fyrir hann er að ég held að þær breytingar sem gerðar voru fyrir nokkrum mánuðum, á miðju ári sennilega, um lækkun á hámarksláni Íbúðalánasjóðs og lækkun lánshlutfalls, auk þess að breyta ekki veðskilyrðum eigna vegna lána hafi komið mjög illa niður á lágtekju- og millitekjuhópum og illa niður á landsbyggðinni. Þessir hópar gátu auðveldlega eignast íbúð í félagslega kerfinu þar sem veitt var 90% og 100% lán, áður en það var lagt niður, og síðan með þeim viðbótarlánum sem þá tóku við til fólks innan ákveðinna tekjumarka.

Það varð gífurleg breyting á lánafyrirgreiðslu vegna íbúðakaupa til þeirra tekjulægri þegar viðbótarlánin voru felld brott og félagslega kerfið lagt niður. Sérstaklega vil ég hér nefna viðbótarlánin vegna þess að veðhæfni eigna á þeim lánum miðaðist við kaupverð eigna en ekki brunabótamat, sem ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir. Á þessu er gífurlega mikill munur.

Nú hefur lánshlutfallið lækkað úr 90% í 80%. Hámarkslánið er farið úr 18 millj. kr. í 17 millj. og veðhæfni eigna miðast við brunabótamat sem algengt er að sé 40% af kaupverðinu, lítillar tveggja herbergja íbúðar. Það er bara algengt að fólk fái ekki lánað, ekki 90%, ekki einu sinni 80%, heldur 40% út af brunabótamatinu. En áður fékk fólk sem hafði viðbótarlán 90% lánað af kaupverði eigna og á þessu er mikill munur.

Þessu til viðbótar hefur orðið alger verðsprenging. Ég get nefnt hér sem dæmi að miðað við 10 millj. kr. eign fyrir fimm árum þá þyrfti fólk miðað við 90% lán að leggja sjálft fram 1 millj. kr. Í dag kostar þessi sama íbúð 20 millj. kr. og vegna þessarar hækkunar og lækkunar á lánshlutfalli þarf fólk að leggja fram 4 millj. fyrir sömu íbúð, um 1 millj. fyrir fimm árum. Þessu verður að taka á. Þarna er ákveðinn hópur sem hefur orðið á milli, fólk með lægri tekjur.

Það sem er verra er að ég tel að þessar breytingar hafi skapað mikinn þrýsting á leigumarkaðnum. Þær hafi aukið á rokdýr skammtíma- og yfirdráttarlán og fækkað lánveitingum verulega á landsbyggðinni. Nú eru t.d. um 1.600 til 1.700 manns á biðlista eftir leiguíbúðum, eingöngu í Reykjavík.

Það er alveg ljóst að þær breytingar sem hafa orðið á stöðu fólks með lægri tekjur til að eignast íbúðir hafa skapað verulegan þrýsting á leigumarkaði. Verulegan þrýsting.

Þess vegna hef ég lagt fyrirspurnir til ráðherrans sem ég má ekki vera að að lesa en þær snúa fyrst og fremst að því hvort ekki sé tímabært að huga sérstaklega að ákveðnum leiðum fyrir fólk sem er í tekjulægri hópnum til að eignast íbúð.