133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

lánveitingar Íbúðalánasjóðs.

105. mál
[14:00]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hvað það er sem gengur á hér. Verðhækkanir á fasteignum á Íslandi eru ekkert einstakt fyrirbrigði. Bandaríkjamenn telja að verðhækkanir á fasteignum þar á undanförnum árum sé stærsta eignabóla í sögu Bandaríkjanna og auðvitað er fasteignaverð á Íslandi og í Evrópu hluti af því dæmi.

Við skulum því þakka fyrir það ef okkur tekst að koma standandi niður úr þessu mikla heljarstökki. Það er mjög mikil ástæða til þess að segja við alla og alltaf að við verðum að fara mjög varlega, það er mjög hættulegt þegar við lendum í svona gríðarlegum verðbreytingum. Því skiptir öllu máli að ríkisstjórninni takist að standa vörð um þau grundvallarsjónarmið sem standa á bak við húsnæðisstjórnina og lánakerfið þar og vonandi ber stjórnarandstaðan gæfu til þess að vera með okkur í því ferli.