133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

lánveitingar Íbúðalánasjóðs.

105. mál
[14:01]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem eins og alþjóð veit fylgist grannt með Íbúðalánasjóði og húsnæðislánum, eins og vonandi þingmenn allir. Ég tel jafnframt ástæðu til að óska hæstv. ráðherra til hamingju með embættið og spyr um leið hvort ekki sé væntanlegt fljótlega frumvarp um Íbúðalánasjóð. Ég tel rétt við þessar aðstæður að fagna því sérstaklega að nýr félagsmálaráðherra skuli hafa staðist áhlaup bankanna og framsóknarforustunnar um að gefa eða selja Íbúðalánasjóð. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna því að sú hugmynd skuli hafa farið með fráfarandi formanni.