133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

lánveitingar Íbúðalánasjóðs.

105. mál
[14:05]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Mér finnst hún bera þess merki að hér sé á ferðinni mál sem hv. þingmenn hafa mikinn áhuga á og ég veit að svo er.

Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson spurði mig hvenær fram kæmi frumvarp um Íbúðalánasjóð. Ég get ekki svarað því nú en eins og hann veit og aðrir er unnið að þessum málum í ráðuneytinu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fullyrti að þær breytingar sem gerðar voru í sumar — það var að vísu sá sem hér stendur sem bar ábyrgð á þeim — hefðu ekki haft nein áhrif á verðbólguna. Ég er ekki sammála því og tel að það muni koma í ljós síðar, en svona er umræðan.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég legg hins vegar áherslu á að húsnæðismálin eru velferðarmál, þess vegna falla þau undir félagsmálaráðuneytið, og við höfum að sjálfsögðu fullan hug á að meðhöndla þennan málaflokk með þeim hætti og á þeirri forsendu að um velferðarmál sé að ræða.