133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

húsaleigubætur.

108. mál
[14:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kom nýlega fram opinberlega að grunnfjárhæð húsaleigubóta hafi ekki hækkað í sex ár eða frá árinu 2000 en á þeim tíma hefði vísitala húsaleigu hækkað um rúmlega 55%, en kveðið er á um grunnfjárhæðir húsaleigubóta í reglugerð sem félagsmálaráðuneytið gefur út. Vísitala húsaleigu hefur hækkað um 55,7% frá janúar 2001–2006 og ef miðað er við október núna hefur hún hækkað um 58,9%. Það kom einnig fram að samkvæmt upplýsingum frá Leigulistanum væri leiga á þriggja herbergja íbúð komin í 90–120 þús. kr. og á tveggja herbergja íbúð í 70–90 þús. kr. Í sömu frétt í Morgunblaðinu kom fram að leiguverð færi stöðugt og hratt upp og að uppsett verð væri oft yfirboðið. Mikið er um að leiguverð sé líka vísitölubundið.

Þessi himinháa húsaleiga sem fólk sem er á leigumarkaðnum þarf að búa við bitnar auðvitað harðast á þeim sem síst skyldi, á námsmönnum og fólki með litlar tekjur sem getur ekki eignast húsnæði, eins og við ræddum áðan, sem væntanlega hefur fjölgað þeim sem þurfa að fara á leigumarkaðinn. Þess vegna gengur það ekki, virðulegi forseti, að leiguverð rjúki upp en grunnfjárhæð húsaleigubóta standi í stað.

Sem dæmi má nefna þegar um er að ræða að vísitala húsaleigu hafi hækkað um tæp 59% frá því grunnfjárhæð húsaleigubóta var síðast hækkuð fyrir sex árum þá hefur leiguverð sem var 50 þús. kr. á íbúð árið 2001 hækkað um tæpar 30 þús. kr. vegna vísitölunnar og er komið í 80 þús. kr. Á meðan hefur grunnfjárhæð húsaleigubóta algjörlega staðið í stað. Það sér hver maður í hendi sér að slíkt gengur ekki.

Það skiptir auðvitað verulegu máli fyrir tæplega 10 þúsund fjölskyldur sem fá húsaleigubætur að bæturnar taki eðlilegum vísitölubreytingum, annað er bara hrein kjararýrnun fyrir þetta fólk og er fljót að fara í hærri húsaleigu sú 15 þús. kr. kauphækkun sem láglaunafólk, sem er á þessum markaði, fékk í sumar í kjarabætur án þess að á móti komi eðlilegar húsaleigubætur sem hafa ekki hækkað í takt við vísitölu.

Út á það gengur eftirfarandi fyrirspurn sem ég legg fyrir hæstv. félagsmálaráðherra:

1. Hver er ástæða þess að ráðherra hefur ekki breytt reglugerð og hækkað grunnfjárhæðir húsaleigubóta sl. sex ár?

2. Hve mikið hefðu grunnfjárhæðirnar hækkað ef þær hefðu fylgt vísitölu greiddrar húsaleigu?

3. Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því í samráði við sveitarfélögin að grunnfjárhæðir húsaleigubóta verði hækkaðar í samræmi við breytingar á vísitölu greiddrar húsaleigu frá því í árslok 2000?