133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

leiga aflaheimilda.

179. mál
[14:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Skýrasta dæmið um ógöngur þess kerfis sem við búum við eru einmitt þær upplýsingar sem fram komu í máli hv. fyrirspyrjanda, að leiguverð á þorskheimildum væri frá 58% upp í 79% af verði fisksins sjálfs.

Þetta endurspeglar kerfi sem einkennist af fákeppni og því að mjög fáir stórir aðilar stjórna framboði á heimildum sem er mikil eftirspurn eftir. Þetta leiðir auðvitað til að leigjendur leggja mjög háar fjárhæðir í leiguna og ganga á laun og annan kostnað.

Það eru um 10 milljarðar kr. sem renna út úr greininni til þeirra sem leigja veiðiheimildir og það eru miklu hærri fjárhæðir árlega sem renna til þeirra sem selja veiðiheimildir. Ég mundi giska á að það væri ekki undir 30 milljörðum kr. á hverju ári sem fara út úr atvinnugreininni til þeirra (Forseti hringir.) sem leigja eða selja fiskveiðiheimildir.