133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[14:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra varðandi alþjóðlegt bann við botnvörpuveiðum.

Fyrir liggur að sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna eru að íhuga þann möguleika að leggja til bann við botnvörpuveiðum. Einnig segja heimildir að nú þegar njóti þessar hugmyndir stuðnings bæði Kofis Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og vísindamanna á vegum samtakanna.

Það er ljóst að umræða um skaðsemi botnvörpuveiða fyrir lífríki sjávar hefur aukist með hverju árinu sem líður. Telja þeir aðilar er um málið fjalla að þær valdi skemmdum á sjávarbotnum og eyðileggi kóralmyndanir og jarðmyndanir og þar með lífsskilyrði ýmissa botndýra og fiska. Þar er aðalröksemdafærslan sú m.a. að botnvörpuveiðar séu ekki sjálfbærar, gjöful fiskimið eyðileggist með tímanum við notkun slíkra veiðarfæra. Íslendingar ásamt ýmsum öðrum ríkjum sem hafa stundað botnvörpuveiðar á úthafinu hafa sætt gagnrýni fyrir að leyfa þessar veiðar. Þessar fregnir eru mjög alvarlegar fyrir okkur og gætu verið fyrsta skrefið til þess að koma á einhverri yfirþjóðlegri stjórn á fiskveiðum um víða veröld. Því er jafnvel haldið fram að fyrsta skrefið í þessu væri bann við botnvörpuveiðum á úthafinu og næsta skrefið yrði að botnvörpuveiðar yrðu alfarið bannaðar.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra:

1. Telur ráðherra að hugsanlegt bann við botnvörpuveiðum á úthafinu gæti aukið líkur á að stjórn fiskveiða færðist til alþjóðastofnana, svo sem Sameinuðu þjóðanna?

2. Telur ráðherra líklegt að ef botnvörpuveiðar verða bannaðar á úthafinu verði þær fljótlega bannaðar alls staðar?