133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[14:57]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu um nokkurra ára skeið og var staddur á þingi Sameinuðu þjóðanna fyrir ári þar sem þetta bann var til umræðu. Botnvörpuveiðar hafa slæma ímynd og ég held að sú ímynd eigi eftir að versna í framtíðinni. Að sjálfsögðu er það alveg rétt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra bendir á að þessi veiðistjórn á að vera í höndum þjóðanna, og ég held að við Íslendingar ættum alveg að vera fullfærir um að geta stýrt þessu sjálfir.

Hins vegar held ég að við þurfum að hugsa okkar gang mjög vandlega. Ég er hræddur um að fiskur sem veiðist í botnvörpu muni í framtíðinni seljast á lægra verði en fiskur sem veiddur er í önnur veiðarfæri.

Ég held að það sé líka mikið umhugsunaratriði að einmitt núna, þegar við sjáum að svona umræða er komin á fulla ferð alþjóðlega, þá erum við Íslendingar að byggja risatogara, togara sem eru með 8 þúsund hestafla vélar. Tvö slík skip hafa verið pöntuð hjá skipasmíðastöð í Noregi. Þessi skip eiga að draga tvær botnvörpur samtímis. Hvers konar áhrif halda menn eiginlega að þetta muni hafa á ímynd slíkra veiða í framtíðinni þegar svona verkfæri verða farin að skarka hér uppi á grunnslóðinni? Umhverfissinnar munu án efa benda á að þetta sé nú ekki mjög (Forseti hringir.) jákvæð þróun.