133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[15:04]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson spurði mig um áhrif umhverfissinna á veiðistjórnina en við sjáum að öll þeirra áhersla hefur verið á að auka hlut alþjóðlegrar veiðistjórnar. Þetta eru alþjóðleg samtök, samtök sem lúta engum landamærum, og þess vegna eru það þeirra hagsmunir og þeirra áhugi að reyna að breyta þessu þannig að það séu ekki þjóðríkin, ekki svæðisbundin samtök sem stjórni veiðunum, heldur sé það gert alþjóðlega. Þess vegna er það ekki tilviljun að þau sýna þessu máli mikinn áhuga og koma yfirleitt vel mönnuð, í stórum sendinefndum, til að reyna að hafa áhrif á þjóðirnar.

Ég vil vekja athygli á einu sem mér finnst skipta miklu máli. Núna eru til umræðu hjá Sameinuðu þjóðunum hugmyndir um að banna þessar veiðar á úthafinu utan svæðisbundinnar fiskveiðistjórnar. Þetta eru ekki svæði þar sem er viðkvæmur hafsbotn. Það eru ekki svæði þar sem eru kórallar og í raun ekki svæði þar sem menn eru að fiska að neinu marki. Með öðrum orðum þá blasir þetta alveg við. Hér er hugmyndin að stíga eitt skref til að geta stigið skrefin áfram. Þetta er alveg augljóst mál.

Ég er hins vegar alveg sammála því sem hér hefur verið sagt. Auðvitað eigum við að ganga vel um lífríki okkar og hafsbotn. Auðvitað eigum við að reyna að gæta þess að við völdum ekki umhverfisspjöllum eða spillum fiskstofnum með veiðum okkar. Það höfum við auðvitað gert eins og ég hef rakið og þarf ekki annað en skoða kort um veiðisvæðin við Ísland til að sjá það.

Það er rétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði, að við höfum ekki gert nægilega mikið af því að stunda veiðarfærarannsóknir. Ég hef hins vegar lagt áherslu á það. Það hefur verið að eflast. Við höfum á Ísafirði útbúið sérstakar rannsóknir í þessum efnum í samvinnu við Hafrannsóknastofnun í Reykjavík og allt er það í þessa átt.

Ég held að í þessu sé grundvallaratriði að þjóðríkin hafi vald á auðlindanýtingu sinni og ég heyri að menn eru almennt sammála um það.