133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

Kárahnjúkavirkjun og Hálslón, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra.

[10:50]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því tækifæri sem hér býðst til að tala um Kárahnjúkavirkjun. Ég fagna því út af fyrir sig að iðnaðarráðherra eigi frumkvæði að því að sú umræða komist á dagskrá þingsins þótt mér sé ekki alveg ljós tilgangur hans með því að efna til hennar og kannski enn síður eftir að hafa hlustað á ræðu hans. Hann fór yfir ýmsar tölur varðandi virkjunina og virkjunarframkvæmdirnar, mannaflanotkun, stærð og aðra þætti. En í sjálfu sér kom ekkert nýtt fram í því sem ráðherrann sagði.

Það er ljóst með Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdirnar fyrir austan að engu verður breytt héðan í frá. Framkvæmdin er orðin að veruleika. Hálslón er að fyllast, álver að rísa og áhrifin á náttúru og samfélag eru óafturkræf. En á þessari stundu veit enginn til fulls hvernig framkvæmdin mun reynast. Við getum bara vonað það besta úr því sem komið er.

Nú þegar þessari umdeildustu framkvæmd Íslandssögunnar er um það bil að ljúka tel ég brýnt að við notum tækifærið sem umræðan gefur okkur til að líta yfir farinn veg, draga lærdóm af því hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd hennar og gerum þann lærdóm að veganesti okkar inn í framtíðina.

Undirbúningur virkjunarinnar endurspeglaði örvæntingu ríkisstjórnarflokkanna í aðdraganda síðustu kosninga. Þeir sáu að eftir átta ára stjórnarsetu þeirra var sjávarbyggðunum um land allt að blæða út. Hæstv. iðnaðarráðherra fór í sjálfu sér ágætlega yfir það hvernig komið var fyrir byggðarlögunum fyrir austan. Þeirra bjargráð var í aðdraganda kosninga að keyra í gegn þessa risaframkvæmd í kjördæmi annars flokksformannsins og kjördæmi þáverandi iðnaðarráðherra. Undirbúningurinn einkenndist af of miklum hraða, of litlum kröfum um arðsemi, of litlum kröfum um náttúruvernd, ónógum rannsóknum á jarðeðlisfræðilegum þáttum og yfirhylmingum, virðulegur forseti, þar sem mikilvægum upplýsingum var haldið leyndum fyrir hinu háa Alþingi þegar heimildarlög fyrir virkjunina voru til umræða. Þetta má ekki endurtaka sig.

Hæstv. iðnaðarráðherra fór yfir arðsemi virkjunarinnar. Það var svo sem allt rétt sem hann sagði um hana. Hins vegar blasir við okkur sú staðreynd að arðsemin var ekki það mikil að hún dygði til þess að hægt væri að fjármagna virkjunina af hálfu einkaaðila. Það segir sína sögu. Virkjunin varð að fjármagnast með ábyrgð opinberra aðila til að hægt væri að fá nógu ódýrt fjármagn til að framkvæmdin stæði undir sér.

Fyrsta óháða matið á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar fór fyrst fram þegar kom til kasta Reykjavíkurborgar að veita samþykki sitt fyrir ábyrgðum. Þá hafði hin pólitíska ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir þegar verið tekin á Alþingi, reyndar af vanefnum eins og komið hefur á daginn.

Annað sem flestum er orðið ljóst er að undirbúningur þessarar umfangsmestu framkvæmdar Íslandssögunnar var keyrður áfram í gríðarlegu kapphlaupi við tímann, ekki af því að efnahagslífið væri á heljarþröm eða atvinnubrestur í landinu og þetta væri eina bjargráðið heldur af því að fram undan voru kosningar. Fylgismenn stjórnarflokkanna í mikilvægum kjördæmum kröfðust þess að þetta stóra kosningaloforð yrði efnt áður en kjörtímabilið væri á enda.

Virðulegur forseti. Hraðinn var of mikill. Til marks um það er að ekki var hlustað á varnaðarorð frá Skipulagsstofnun. Niðurstaða hennar frá 1. ágúst 2001 varðandi virkjunina var mjög skýr. Í niðurstöðu hennar segir, með leyfi forseta:

„Það er því ljóst að mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar hlýtur að verða mjög umfangsmikið. Í tillögu Landsvirkjunar að matsáætlun er framkvæmdinni, gagnasöfnun og mati á umhverfisáhrifum lýst með nokkuð almennum hætti. Þannig liggja þar ekki fyrir upplýsingar um alla meginframkvæmdarþætti. Einnig er farið nokkuð almennum orðum um hvernig staðið verði að mati á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmdarþátta. Þannig liggur ekki fyrir í öllum tilvikum hvernig staðið verður að matinu, svo sem um gagnasöfnun, árstíma og tímalengd rannsókna, aðferðir við mat á áhrifum og hvernig fyrirhugað er að setja niðurstöður matsins fram í matsskýrslu.“

Áfram segir í niðurstöðu Skipulagsstofnunar:

„Skipulagsstofnun telur ljóst af framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, málsmeðferð stofnunarinnar og framkomnum umsögnum og athugasemdum að svo víðtæk framkvæmdaáform sé erfitt að fella að málsmeðferð samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur að þeir frestir sem settir eru í lögunum um kynningu og ákvörðun um matsáætlun og matsskýrslu séu ekki til þess fallnir að tryggja fullnægjandi kynningu og umfjöllun meðal stofnana, almennings og félagasamtaka í samræmi við markmið laganna um eins umfangsmikil framkvæmdaáform og hér um ræðir.“

Þetta er úr niðurstöðum Skipulagsstofnunar á sínum tíma. Í ljósi þess sem þar segir lagðist Skipulagsstofnun gegn framkvæmdinni.

Þegar litið er til baka er ljóst, að ofansögðu og röð atburða á þessum tíma, að asi stjórnvalda við undirbúning stórvirkisins var með ólíkindum. Þeim niðurstöðum Skipulagsstofnunar sem hér var vitnað til var rúmum fjórum mánuðum síðar, eins og kom fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra, snúið við af þáverandi umhverfisráðherra eftir kæru Landsvirkjunar. Sá gjörningur var mjög umdeildur og ljóst að þar hafði pólitískur þrýstingur ráðið fremur en umhverfisleg og verkleg rök sem Skipulagsstofnun benti á í úrskurði sínum frá 1. ágúst sama ár. Eru ummæli ýmissa ráðherra frá haustmánuðum þess árs til marks um það en þeir töluðu úrskurðinn niður. Þeir sögðust jafnviljugir að virkja eftir úrskurðinn sem fyrir hann.

Af þessum vinnubrögðum þarf þjóðin að læra. Þarna hefði átt að fara sér hægar, fylgja ráðum Skipulagsstofnunar og fylgja anda laganna um umhverfismat frekar en að nýta sér þrengsta skilning þeirra. Skipulagsstofnun stóð sína plikt en þáverandi umhverfisráðherra brást, því miður.

Daginn sem iðnaðarráðherra lagði fram á Alþingi frumvarp til laga um heimild fyrir Kárahnjúkavirkjun sendir sérfræðingur Orkustofnunar, einn fremsti jarðeðlisfræðingur landsins, Grímur Björnsson, yfirmanni sínum greinargerð þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar við áætlaða virkjunarframkvæmd. Yfirmaður hans sendir þær athugasemdir þegar áfram, annars vegar til Landsvirkjunar, þar sem fagaðilar tóku athugasemdirnar mjög alvarlega, en hins vegar til iðnaðarráðuneytisins. Hjá iðnaðarráðuneyti virðast menn hins vegar ekki hafa litið á athugasemdir Gríms sem merkilegan pappír. Samkvæmt upplýsingum sem Samfylkingin óskaði eftir í iðnaðarnefnd þótti starfsmönnum ráðuneytisins ekki þörf á að sýna iðnaðarráðherra athugasemdirnar.

Þetta er enn alvarlegra en ella í ljósi þess að greinargerð Gríms var ætluð alþingismönnum. Hún var ætluð alþingismönnum en náði aldrei til þeirra. Það sér hver maður sem les þessa greinargerð að hann stílar hana á þingmenn. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Óviðunandi er að mínu mati fyrir Alþingi að afgreiða virkjunarleyfið, ef ekki er tekið sérstaklega á þessum þætti.“ — Þá er hann að tala um sprungur undir sjálfri Kárahnjúkastíflu.

Annars staðar segir hann, virðulegi forseti:

„Eftirfarandi atriði tel ég óskýrð og/eða verulega áhættuþætti við gerð Kárahnjúkamiðlunar, sem skýra/hrekja verði áður en Alþingi samþykkir lög um virkjunina …“ — síðan kemur upptalning af hans hálfu.

Greinargerðin er því greinilega ætluð þingmönnum en hún komst aldrei til þeirra. (HBl: Af hverju var hún ekki send þingmönnum, fyrst hún var þeim ætluð?) Það er auðvitað spurning sem hv. þm. Halldór Blöndal verður að spyrja iðnaðarráðherra, hvernig standi á því að skýrsla sem kemur sem trúnaðarmál til ráðherra, af hverju ekki var létt af henni trúnaðinum og hún lögð fyrir Alþingi. (Gripið fram í.) En þáverandi iðnaðarráðherra varð reyndar tvísaga í málinu. Annars vegar hefur hún sagt að hún hafi ekki talið efni athugasemdanna eiga erindi til Alþingis og hins vegar segist hún ekki hafa lesið athugasemdirnar fyrr en eftir að lög um virkjunina voru samþykkt 8. apríl 2002. Þannig er ráðherra tvísaga í málinu, hv. þm. Halldór Blöndal.

Hver sannleikurinn er í raun í þessu máli liggur ekki ljóst fyrir. En hins vegar er ljóst hver ber ábyrgðina. Ábyrgðin á að mikilvægum upplýsingum, eins og grunsemdum eins fremsta jarðeðlisfræðings landsins um að sprungur undir stíflustæði virkjunarinnar væru virkar, sem síðan reyndust á rökum reistar eins og fram kom í rannsókn sem var gerð árið 2004, var haldið leyndum fyrir Alþingi allan þann tíma sem heimildarlög um virkjunina voru til umræðu hvílir á fyrrverandi iðnaðarráðherra. Hins vegar er ómögulegt að segja til um hvaða áhrif greinargerð Gríms hefði haft á niðurstöðu Alþingis. Líklegt verður að teljast að farið hefði verið fram á frekari rannsóknir. Það hefði auðvitað þýtt tafir á verkinu, sem ásamt öðru, svo sem óvissu um kaupanda að orkunni, hefði sett framkvæmdina í óvissu. Þetta hefur framkvæmdarvaldinu verið ljóst og að öllum líkindum skýrir það meðferð iðnaðarráðuneytisins á upplýsingunum. Yfirhylmingar af þessu tagi eru að sjálfsögðu vítaverðar. Af þeim verðum við að draga lærdóm.

Grímur er ekki eini jarðvísindamaðurinn sem haft hefur áhyggjur af því að ekki hafi verið staðið nægilega að rannsóknum á svæði Kárahnjúkavirkjunar á undirbúningstíma virkjunarframkvæmda. Í Morgunblaðinu nú í október birtist m.a. viðtal við Magnús Tuma Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði. Þar segir hann, virðulegur forseti, að rannsóknirnar hafi verið algjörlega ófullnægjandi. Hann segir, með leyfi forseta:

„… í ljósi þess hversu mikilvægt verk þetta var og þess hvernig þetta hefur gengið er ekki hægt að segja annað en að rannsóknirnar hafi verið algerlega ófullnægjandi.“

Aftur segir hann síðar í þessu viðtali:

„Svo er að sjá að Landsvirkjun hafi ekki byrjað fyrir alvöru að huga að áhrifum lónsins á bergið fyrr en á síðustu tveim árum.“

Það er auðvitað áhyggjuefni fyrir okkur leikmenn þegar jarðvísindamenn gera jafnalvarlegar athugasemdir og raun ber vitni. Þetta er áhyggjuefni fyrir Alþingi sem gaf leyfi fyrir framkvæmdinni en á auðvitað að geta treyst því að framkvæmdarvaldið, undirstofnanir þess og fyrirtæki ríkisins, sem bera ábyrgð á framkvæmdinni, standi þannig að málum að hafið sé yfir allan vafa að fyllsta öryggis og varfærni sé gætt í þessu gríðarlega mannvirki.

Hvað getum við lært, virðulegur forseti? Jú, í fyrsta lagi að ráðast ekki í virkjanir á svæðum sem ekki hafa verið rannsökuð til fullnustu út frá náttúruverndargildi til framtíðar. Svæði geta haft mikið gildi þótt þau hafi kannski ekki verið fjölsótt. Í því sambandi vil ég vísa til Brennisteinsfjalla þar sem sótt er um rannsóknar- og nýtingarleyfi. Það er ekki fjölsótt svæði en áreiðanlega gríðarlega mikilvægt svæði þegar til framtíðar er litið.

Í öðru lagi að ráðast ekki í virkjanir sem hafa jafnstórfelld óafturkræf áhrif á náttúru og umhverfið. Þarna er ég einfaldlega að segja að virkjunin er of stór.

Í þriðja lagi verðum við að standa betur að rannsóknum á jarðfræði þeirra svæða sem tekin eru til virkjunarnota.

Í fjórða lagi þarf að tryggja opið og gegnsætt ferli á undirbúningsstigi og framkvæmdatíma og gera öll gögn aðgengileg en stinga þeim ekki undir stól. Ríkisstjórnin á ekki að vera neitt leyndarráð, hvorki í virkjunarmálum né varnarmálum. En það er eins og við vitum mikil leynd sem hefur hvílt yfir þeim málum.

Í fimmta lagi getum við lært að ráðast ekki í stórframkvæmdir sem hafa veruleg áhrif á efnahagsmál, veruleg ruðningsáhrif án þess að axla pólitíska ábyrgð á mótvægisaðgerðum. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hún sýndi fullkomið ábyrgðarleysi í efnahagsmálum á framkvæmdatíma virkjunarinnar og álversins með alvarlegum afleiðingum fyrir bæði atvinnulíf og heimili.

Í sjötta lagi tel ég að það hafi verið mistök að stofna ekki sérstakt félag um virkjunina, annaðhvort félag sem gæti fjármagnað sig á markaði og þyrfti þar af leiðandi að lúta eðlilegum arðsemiskröfum eða sérstakt félag sem hefði getað verið í eigu Landsvirkjunar. Þetta var auðvitað kjörið verkefni þar sem orkan fer öll í eitt álver, er í raun óbein fjárfesting í áliðnaði og hefði átt að byggjast á viðskiptasjónarmiðum.

Virðulegur forseti. Við verðum að takast á við náttúruvernd, auðlindanýtingu og virkjanir með öðrum hætti en hingað til. Við verðum að skapa nýjar leikreglur í samræmi við verðmæti náttúrunnar og tilfinningar þjóðarinnar til landsins. Deilurnar um Kárahnjúkavirkjun hafa opnað gjá milli fólks sem gæti átt samleið, dregið víglínur sem þurfa ekki að vera, þeirra sem studdu virkjun með hagsmuni Austfirðinga að leiðarljósi en er samt annt um íslenska náttúru, og hinna sem lögðust gegn henni en er samt annt um Austfirðinga. Við getum ekki staðið þannig að málum að efnt sé til svæðisbundinna átaka um land allt og fólk ýmist munstrað nauðugt viljugt í virkjanaherinn eða verndunarherinn. Þess vegna hefur Samfylkingin unnið tillögur um hvernig styrkja megi stöðu náttúru- og umhverfisverndar og takast á við verkefnið með skipulögðum hætti.

Auðlindanefnd hefur nú skilað tillögum. Vissulega eru þær tillögur skref í rétta átt og sýna hverju hægt er að áorka ef fólk talar saman, ef stjórnvöld ryðjast ekki áfram með áform sín án tillits til stjórnarandstöðu eða tilfinninga fólksins í landinu. Nú höfum við tvö dæmi þar sem stjórnarandstaðan hefur knúið ríkisstjórnina til samstarfs um mál og náð ágætri sátt, annars vegar auðlindanefndin og hins vegar fjölmiðlanefndin, eftir að búið var að böðlast í þinginu mánuðum saman (Gripið fram í: Árum.) eða árum saman. Í vor þarf að stíga skrefið til fulls, auka veg náttúruverndar (Forseti hringir.) og hefja strax vinnu við rammaáætlun um náttúruvernd eins og Samfylkingin hefur lagt til.