133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:34]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að í sölum þingsins ræðum við þau mikilvægu mál sem lífeyrismálin eru. Það hefur oft skort á að hér sé einmitt málefnaleg umræða um forgangsröðunina og hvernig við viljum haga þessum málum.

Ég vil aðeins koma inn á ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á undan mér þar sem hún ræddi um atvinnuþátttöku eldri borgara. Ég vil spyrja hana hvað hún telji valda því að í norrænum samanburði er það svo að atvinnuþátttaka eldri borgara er hæst hér á landi. Það er staðan. Vegna þess að í máli hennar kom fram að þeir sæju sér enga ástæðu til að vinna. En raunin eru nú önnur. Atvinnuþátttaka eldri borgara er með því hæsta sem þekkist á Norðurlöndum og er það ein af ástæðum þess að við komum ágætlega út í norrænum samanburði.

En ég vildi koma aðeins inn á jöfnunina og spyrja betur út í þá hugsun eða þá hugmyndafræði sem er að baki þessari þingsályktunartillögu, því ég velti fyrir mér í forgangsröðun um ráðstöfun fjármuna hvort nauðsynlegt sé að koma upp þessu frítekjumarki, sem ég sé að gert er ráð fyrir í tillögunni, ég á svo sem eftir að kynna mér það enn betur og ég geri ráð fyrir að við gerum það í heilbrigðis- og trygginganefnd. Hvort nauðsynlegast sé, þegar deilt er út takmörkuðum fjármunum ríkisins, að koma á frítekjumarki til þeirra sem geta unnið meðan það er hópur fólks sem ekki getur unnið og mun ef til vill ekki geta unnið. Hver er þá staða þeirra þegar við skiljum þá eftir í þeim tillögum sem hér eru kynntar?