133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:39]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir fari vill vegar þegar hún talar um að það sé samræmt á milli landa. Það er auðvitað verið að skoða eldri borgara almennt. Það er alveg ljóst og öllum kunnugt og það reka allir upp stór augu þegar maður talar um það erlendis að hér sé eftirlaunaaldurinn miðaður við 67 ár vegna þess að annars staðar er rétturinn allur annar.

Hins vegar varðandi jöfnunina er það ekki þannig að hér sé bara verið að leggja til frítekjumark. Hér er verið að leggja til verulegar breytingar í átt til jöfnunar vegna þess að hér er verið að leggja til afkomutryggingu í þágu aldraðra og öryrkja þannig að öllum séu tryggð ákveðin tiltekin lífskjör. Til grundvallar fyrir tryggingu sé lögð neyslukönnun sem við leggjum til að verði unnin.

Einnig er lagt til að tekjutryggingin verði hækkuð til þeirra sem ekkert hafa annað en tekjutrygginguna. Þetta er ekki bara tillaga um frítekjumark. Þetta er samsett tillaga sem tekur á ýmsum þáttum í lífeyriskerfinu og þær miða allar í sömu átt, að tryggja kjör aldraðra og öryrkja og tryggja líka möguleika þeirra til að bæta stöðu sína og kjör. Því það hlýtur líka að vera mikilvægt fyrir það fólk sem er t.d. með lítið úr lífeyrissjóðum, að það eigi möguleika á að bæta stöðu sína og afkomu með einhverjum launatekjum án þess að því sé refsað beinlínis fyrir það eins og er í kerfinu í dag.