133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillagan sem hér er til umræðu er 3. þingmál þessa þings. Það er sameiginleg tillaga allrar stjórnarandstöðunnar, með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar í broddi fylkingar, um nýja framtíðarskipan lífeyrismála.

Á þeim stutta tíma sem ég hef til umráða er ekki hægt að koma öllu að sem ég vildi nefna. Inn í málið blandast það sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja kalla samkomulag við eldri borgara. En eldri borgarar segja, og forustumenn þeirra, að það hafi ekki verið samkomulag heldur yfirlýsing.

Það hefur hálfpartinn komið fram að varðandi þá yfirlýsingu hafi eldri borgurum nánast verið stillt upp við vegg. Annaðhvort sættu menn sig við yfirlýsinguna eða ekkert yrði gert og aðrir þættir settir í uppnám. Það er í takt við framkomu ríkisstjórnarflokkanna við eldri borgara að koma fram á þennan hátt. Um það mætti segja margt og bera saman yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem eldri borgarar þurftu að sætta sig við hálfnauðugir, og þær tillögur sem við leggjum fram en, virðulegi forseti, á milli þessa tveggja er töluverður munur. Fulltrúar eldri borgara sem hafa tjáð sig um þetta mál segja að mikill munur sé á þessu og töluvert annar bragur á því sem stjórnarandstaðan er að leggja hér fram. Það er auðvitað sýn okkar í stjórnarandstöðunni á hvernig við mundum vilja gera þetta sætum við við völd. Við viljum lagfæra þessi mál og það er í takt við málflutning okkar undanfarin ár, virðulegi forseti, hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Skattpíning, sem ég vil kalla, ríkisstjórnarinnar á eldri borgurum er náttúrlega það sem hefur gert ástandið hvað verst. Frá árinu 1995, þegar þessir stjórnarflokkar tóku við, hefur það gerst að eldri borgarar og öryrkjar þurfa að borga heilmikið af bótum sínum í skatt til ríkissjóðs. Talað er um að sem svarar til allt að eins og hálfs til tveggja mánaðartekna þeirra renni í skatt til ríkissjóðs.

Skattbyrði almennings hefur stóraukist síðastliðin ár og er nánast heimsmet. Það kemur til vegna rýrnunar skattleysismarka sem aðallega hefur bitnað á lágtekjufólki og fólki með meðaltekjur, öldruðum og öryrkjum, lágtekjufólki og millitekjuhópum. Ríkisstjórn ójafnréttis og ranglætis, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hefur fundið breiðu bökin til að skattleggja. Þeir koma svo í ræðustól hins háa Alþingis og guma af mettekjum ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Má ég minna á að ríkissjóður fékk á síðasta ári, árið 2005 um 65 milljörðum kr. meira í kassann en ætlað var. Þar tel ég ekki með tekjur af sölu Símans. Ef það væri gert væru það 110 milljarðar kr. Á sama tíma hafa útgjöld til velferðar- og menntunarmála einungis aukist um 4% af þjóðarframleiðslu.

Neysluskattarnir hafa stóraukist líka vegna aukinnar neyslu o.s.frv. Allt gerir það að verkum að ríkissjóður bólgnar út. Svo koma ráðherrar og hæla sér af því að ríkissjóður sé að verða skuldlaus og greiði lítið í vaxtagjöld. Allt í lagi, það er hægt að finna þetta út ef gjaldeyrisvarasjóðurinn er tekinn með. En við skulum hafa í huga, virðulegi forseti, að m.a. aldraðir og öryrkjar leggja í þessa hít ríkissjóðs gegnum skatta. Enda er talið, virðulegi forseti, að skattbyrði 66–70 ára hafi aukist um tæp 10%. Ef við förum svolítið hærra í skattbyrði 71–75 ára, er talið að hún hafi aukist um rúm 13% á því tíu ára tímabili sem ég hef verið að tala um. Regla ríkisstjórnarinnar virðist vera: Því eldri, því meiri skattar. Af þessu guma þeir. Ég segi: Þetta er auðvitað ríkisstjórninni til skammar og ljótur blettur á okkar annars ágæta þjóðfélagi, hvernig við komum fram við aldraða og öryrkja.

Virðulegi forseti. Það verður að hrósa því að tveir þingmenn stjórnarliðsins sitja við þessa umræðu. Hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir. Þær eru báðar framsóknarmenn, sem hafa mátt þola ýmislegt frá höfuðbólinu, frá Sjálfstæðisflokknum og verið teymdir áfram til ýmissa óhæfuverka eins og þeirra sem við erum að tala um. En Sjálfstæðisflokkurinn skilar auðu og lætur ekki sjá sig. Mér er kunnugt um, virðulegi forseti, að óskað hafi verið eftir að fleiri ráðherrar yrðu viðstaddir en þeir hafa ekki getað orðið við því. Ég sakna þess mjög að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki viðstaddur þessa umræðu.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir talaði áðan um atvinnuþátttöku aldraðra, að hún sé hæst hér af Norðurlöndum. Það er alveg rétt. En miðað við Norðurlönd er á Íslandi, virðulegi forseti, mest skattpíning á eldri borgurum sem fara út á vinnumarkaðinn. Það er nánast þannig að vinni aldraður eða öryrki sér inn 100 kr. þá skerðast þær um 45 kr. Þetta er bæði Norðurlandamet og sennilega heimsmet eins og svo margt hjá þessari ríkisstjórn þegar kemur að innheimtu skatta.

Ég segi það, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur fundið breiðu bökin. Það eru aldraðir og öryrkjar. Sú yfirlýsing sem eldri borgarar skrifuðu undir er aðeins byrjunin, að þeirra sögn. Þeir eiga eftir að koma aftur og tala um önnur atriði. Yfirlýsingin kom til vegna hálfgerðrar hótunar um ýmislegt er varðar Framkvæmdasjóð aldraðra sem ég reyndar skil ekki af hverju þarf að semja um vegna þess að hann á náttúrlega ekki að skerða eins og gert hefur verið.

Virðulegi forseti. Það hefði mátt ræða um ýmislegt fleira, t.d. frítekjumarkið sem við leggjum til að verði 75 þús. kr. eða 900 þús. kr. á ári strax á næsta ári. En ríkisstjórnin skilar einungis 17 þús. eftir tvö ár og 25 þús. kr. eftir fjögur ár. Reikningurinn á sem sagt að fara, eins og svo margt annað hjá þessari ríkisstjórn, á næsta kjörtímabil. Þeir ætla ekki að taka þátt í þessu.

Virðulegi forseti. Ég fagna því hvernig stjórnarandstaðan kemur fram með tillögu sína. Það er okkar stefnumið (Forseti hringir.) að þetta verði eitt af forgangsmálum þjóðarinnar.