133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:08]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki svo að sá þingmaður sem hér stendur vilji ekki beita sér fyrir aukinni þátttöku eldri borgara á atvinnumarkaðnum. En staðan er sú að hlutfall eldri borgara á atvinnumarkaðnum er mun hærra hér en þekkist í löndunum í kringum okkur en aftur á móti eigum við lengra í land hvað varðar atvinnuþátttöku öryrkja. Þess vegna tók ég það upp hér og mér finnst ekki gilda nákvæmlega sömu lögmál um þessa tvo hópa.

Ég vildi líka kannski nefna það hér að menn verða auðvitað líka að hafa í huga tekjuflæðið, ef svo má segja, eða þær tekjur sem menn hafa á lífsleiðinni. Því þegar fólk er að koma úr námi, koma yfir sig húsnæði, stofna fjölskyldu, byggja upp starfsframa og þar fram eftir götunum, sem vanalega útheimtir mikil útgjöld og ungt fólk þarf vanalega að vinna mikið til að standa undir þeim byrðum sem þessu fylgja, þá er mikilvægt að tekjur þeirra séu góðar. Maður veltir fyrir sér hvort rétt sé að forgangsröðun ríkisins sé með þeim hætti að þegar fólk fer síðan út af vinnumarkaðnum og á ellilífeyri skuli tekjur þess eiga að hækka mjög mikið meðan það þurfti kannski á tekjunum að halda þegar það stóð í baslinu. Mér finnst að menn verði alltaf að hafa þetta í huga þegar þessi mál eru rædd.