133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:23]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar hér um málefni aldraðra og ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að gera vel í þeim efnum. Enda er það svo að á síðustu ellefu árum hafa kjör aldraðra almennt batnað í samfélaginu. Það deilir enginn um það að kjör aldraðra almennt hafa batnað verulega á þessu tímabili, þó alltaf megi gera betur. Ég fagna því samkomulagi sem var gert fyrr á árinu milli aldraðra og ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar var það svo, og hv. þingmaður ætti að muna það, að á tímum hv. þingmanns sem hæstv. félagsmálaráðherra var tekjusamdráttur í þjóðfélaginu sem bitnaði kannski hvað harðast á þeim sem lægstar höfðu tekjurnar. Ríkisstjórnin hefur verið að byggja upp öflugt velferðarkerfi, við höfum aukið framlög til almannatrygginga og velferðarmála frá árinu 1998 um 45%. Svo koma hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og gera því skóna að menn hafi verið að skerða framlög til þessara málaflokka, það er alrangt.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við höfum verið að ná núna áföngum í samstarfi við eldri borgara sem m.a. fela í sér að skattleysismörkin hækka úr 78 þús. kr. upp í 90 þús. kr. Ég tel að það megi gera betur á þeim vettvangi í framtíðinni.

Við erum að setja 115 milljónir í Framkvæmdasjóð fatlaðra sem á að fara úr rekstri sem sjóðurinn er í í stofnkostnað.

Hv. þingmaður talar um að það verði að framkvæma þessar tillögur Samfylkingarinnar en ég ætla að minna á að Samfylkingin er með margar aðrar útgjaldatillögur, eins og t.d. í matarskattinum, þar sem fullyrt er að muni kosta helmingi meira fyrir ríkissjóð en það sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt upp með. Hvar ætlar hv. þingmaður að fá alla þessa fjármuni, þeir vaxa ekki á trjánum einum? Það verður að sýna ábyrgð í þessum málum.