133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:25]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kemur hv. þingmaður og ber sér á brjóst og segir að velferðarkerfið hafi batnað í tíð þessarar ríkisstjórnar, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt. Ég bið hv. þingmann um að tala við öryrkja og aldraða og spyrja hvort kjör þeirra séu betri núna en þau voru fyrir tíu árum. Ég er viss um að svarið er nei, vegna þess að öryggisnet velferðarkerfisins hefur brostið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það finna lífeyrisþegar á kjörum sínum eins og ég var að rekja hér áðan. Það er miklu dýrara fyrir lífeyrisþega að lifa vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa verið að skerða kjör lífeyrisþega, kjör þeirra miðað við raungildi eins og það var 1995.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja væri 15–17 þús. kr. hærri á mánuði í dag ef þessar lífeyrisgreiðslur, grunnlífeyrir og tekjutrygging, hefðu fengið að halda raungildi sínu eins og það var 1995. (Gripið fram í.) Þar munar 170 þús. kr. á ári sem þið hafið verið að taka af lífeyrisþegum, sem þið skuldið lífeyrisþegum og ættuð að borga þeim þegar í dag. Þið voruð einungis að skila til þeirra með þessari yfirlýsingu 15 þús. kr. sem voru kjarabætur sem aðrir á vinnumarkaðnum höfðu fengið. Þið voruð ekki að bæta þeim upp þá skerðingu sem þeir hafa orðið fyrir í tíð þessarar ríkisstjórnar. Fyrir utan það að lyfja- og lækniskostnaður hefur verið að hækka og húsnæðiskostnaður hefur verið að hækka.

Velferðarkerfið er brostið. Það verður fyrsta verk í stjórn jafnaðarmanna að endurreisa velferðarkerfið sem þið hafið brotið á bak aftur. Það finna lífeyrisþegar sannarlega á kjörum sínum. Kaupmáttur þeirra er minni, hefur vaxið minna en annarra í þjóðfélaginu í þeirri gósentíð sem þið … (Gripið fram í.) Kaupmáttur þeirra hefur vaxið minna en annarra, aðrir hafa fengið miklu meiri kaupmátt en lífeyrisþegar. Þið hafið skilið þá eftir í stjórnartíð ykkar. Hafið (Forseti hringir.) skömm fyrir það.