133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það var furðulegt að hlusta á hæstv. landbúnaðarráðherra halda því fram að mjólkuriðnaðurinn á Íslandi væri ekki ríkisstyrktur. Hvar elur hæstv. landbúnaðarráðherra manninn, vitandi það að ríkið leggur hvergi meira fram en til framleiðslu á mjólk í þessu landi og bændur eiga þennan mjólkuriðnað?

Það er líka furðulegt að hlusta á sjálfstæðismenn koma hvern á fætur öðrum og tala hver í sína áttina, eftir að hafa samið um að í þessari atvinnugrein, þ.e. landbúnaði, eigi frelsið ekki heima og sett lög um það á þinginu. Þar skal ekki ríkja samkeppni. Fyrir þessa atvinnugrein eru Öskjuhlíðarfundir ekki bara leyfðir heldur lögbundnir. Og þeir sem ógna íslenska samyrkjubúinu með kröfum um samkeppni eru auðvitað í bullandi pólitík, það er augljóst. Íslenska samyrkjubúið á að standa um eilífð. Sovétskipulagið féll en íslenska samyrkjubúið skal lifa. Þetta er það sem er í gangi.

Bændur í mjólkuriðnaði á Íslandi stefna að því að búa til eitt fyrirtæki. Þetta vita stjórnvöld ósköp vel og styðja við þá leið. Ég er algjörlega ósammála þeirri leið. Ég tel að það muni ekki verða neytendum á Íslandi til bóta og leiða til þess að verðlag á landbúnaðarvörum muni aldrei lækka eins og það gæti gert í samkeppni. Auðvitað verður þessi atvinnugrein að búa við samkeppni í framtíðinni. Það gerist bara með frelsi, með reglum þar sem menn geta keppt í atvinnugreininni á markaðnum. Það gerist ekki með Öskjuhlíðarfundum. Það gerist ekki með lögum sem lögbinda að menn hafi allt annan hátt á í þessari atvinnugrein en öðrum.

Hæstv. forseti. Ég skora á hæstv. landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) að snúa af braut sinni.