133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:47]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur oft hlunnfarið öryrkja í stjórnartíð sinni. Þeir hafa þurft að sækja rétt sinn og bætt kjör til dómstóla landsins. En það er þyngra en tárum taki að öryrkjar sjái sig knúna til að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna þeirrar gífurlegu kjaraskerðingar sem lífeyrissjóðirnir ætla að beita fátækasta fólkið í landinu. Maður spyr: Heyra þær samfélagslegu skyldur, félagslega samhjálp og tryggingavernd, sem eru hornsteinn lífeyriskerfisins sögunni til? Það er engu líkara en við séum komin aftur til fortíðar, fyrir daga lífeyriskerfisins og verkalýðhreyfingarinnar þegar fátækt fólk var hýrudregið og illa farið með það.

Svipta á öryrkja stórum hluta lífeyristekna sinna á afar hæpnum forsendum, sem hlýtur að ganga gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Með þessu er verið að gera grundvallarbreytingar á þeirri tryggingavernd og samtryggingu sem lífeyrissjóðirnir hafa staðið fyrir. Þannig eru um 77% þeirra 2.300 einstaklinga sem í þessu lenda með heildartekjur undir 125 þús. kr. á mánuði. Tveir af hverjum fimm eru með tekjur undir 88 þús. kr. Að fullu falla niður greiðslur hjá 745 öryrkjum sem höfðu greiðslur undir 1 millj. kr.

Þeir sem til mín hafa leitað vegna þessa eru fullir örvæntingar og ótta um afkomuöryggi sitt eftir þessa breytingu. Þetta fólk sér fram á að ef ekki verður snúið til baka með þessa skerðingu missi það íbúð sína, geti það ekki staðið undir leigu, ekki leyst út lyfin sín og ekki átt fyrir brýnustu matvöru út mánuðinn. Ábyrgðin af þessari aðför, sem verður að stöðva, liggur líka hjá hæstv. fjármálaráðherra sem varla hefur blindandi skrifað undir samþykktir lífeyrissjóðanna, ekki bara vegna þess að þær svipta lífeyrisþega stórum hluta framfærslu sinnar heldur líka, hæstv. forseti, vegna þess að undirskrift ráðherrans hefur í för með sér hundruða milljóna kr. útgjöld fyrir ríkissjóð.