133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti réttilega á það áðan að stór hópur öryrkja gæti ekki bætt sér upp tekjumissi með atvinnutekjum. Útreikningur lífeyrissjóðanna byggir á neysluvísitölu, þ.e. á verðlagsþróun en ekki launavísitölu eins og bent hefur verið á af fyrri ræðumönnum. Verði kaupmáttaraukning, þ.e. að laun hækki umfram almennt verðlag eins og gerst hefur á undanförnum árum, dregst öryrkinn náttúrlega aftur úr í launum.

Lífeyrissjóðirnir hafa nú lagst í þá vinnu að skoða réttindi hvers og eins lífeyrisþega sem fær örorkubætur úr sjóðunum. Reglur sjóðanna gera ráð fyrir að þeir horfi eingöngu til neysluvísitölunnar. Niðurstaðan hlýtur því að verða sú að stór hópur fólks verði fyrir skerðingu. Sú niðurstaða er röng að mati okkar í Frjálslynda flokknum, miðað við fyrirheit um tekjutryggingu öryrkja. Lífeyrissjóðunum ber tvímælalaust að haga reglum sínum á þann veg að framreikningurinn byggi á launavísitölu en ekki á neysluvísitölu. Aðeins þannig er hægt að ná fram samsvörun við launakjör sem fyrirheit voru um að tryggja.

Almannatryggingakerfið þarf að koma betur til móts við öryrkja. Þetta þarf að gera beint gagnvart öryrkjanum en má líka gera óbeint með stuðningi við lífeyrissjóðina líkt og Alþýðusamband Íslands hefur gert að kröfu sinni. Það er hægt að grípa til sértækra aðgerða gagnvart þeim lífeyrissjóðum sem bera mestu örorkubyrðarnar. En þess eru dæmi að örorkubætur séu yfir 40% heildargreiðslna úr sjóðum. Það sjá allir, virðulegi forseti, að slíkar útborganir án iðgjalda geta orðið sjóðunum mjög erfiðar til lengri tíma litið.