133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:58]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við þessa umræðu hafa fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi gert þungar og alvarlegar athugasemdir við framgöngu lífeyrissjóðanna í þessu máli. Ég fagna þeirri þverpólitísku samstöðu sem virðist um að standa vörð um það fátæka fólk sem hér er ráðist að. Lífeyrissjóðirnir hljóta að taka þessi skilaboð frá Alþingi alvarlega, taka ákvörðun sína til endurskoðunar og skerða ekki greiðslurnar nú þegar 1. nóvember.

En hæstv. fjármálaráðherra verður að gera betur. Málið er á borði hæstv. fjármálaráðherra. Það er rétt sem kom fram hjá honum, að hann á að staðfesta samþykktirnar, séu þær í samræmi við lögin. Nú veit hæstv. fjármálaráðherra að samþykktirnar voru ekki í samræmi við lögin þótt hann hafi kannski verið ranglega upplýstur um að þetta væru óverulega áhrif þá veit hann nú að samþykktirnar brjóta gegn stjórnarskrá. Hvers vegna veit hann það? Vegna þess að ríkisstjórnin lét vinna lögfræðiálit vegna eftirlaunamáls alþingismanna og ráðherra. Ríkisstjórnin lét vinna lögfræðiálit sem segir að það geti stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt að afnema þær greiðslur til sendiherra og ríkisforstjóra, upp á hundruð þúsunda sem við veittum á Alþingi bara fyrir tveimur árum, vegna þess að það séu orðin virk eignarréttindi þessara manna og þau megi ekki af þeim taka. Ef það er svo þá er auðvitað algerlega fráleitt að sama ríkisstjórn geti staðfest samþykktir sem taka t.d. 20 þús. kr. af fólki sem hefur haft þær í áratugi sem áunnin réttindi sín og hluta af efnahag sínum.

Það er alveg klárt (Forseti hringir.) að ef það má ekki skerða afturvirkt eftirlaunaréttindi alþingismanna og ráðherra þá getur hæstv. fjármálaráðherra ekki staðfest (Forseti hringir.) sviptingu lífeyrisréttinda fólks með þessum hætti. Hann hlýtur að afturkalla það.