133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:10]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Varðandi þá ósk hv. þingmanns að forseti breyti röð dagskrármála og taki 58. mál til umræðu á undan 56. og 57. máli vill forseti taka fram að sú röðun mála sem kemur fram á prentaðri dagskrá er í samræmi við ósk menntamálaráðherra sem er flutningsmaður málanna. Þó að forseti ráði samkvæmt þingsköpum röð mála hlýtur forseti jafnframt að byggja ákvörðun sína hverju sinni á eðlilegum óskum sem fram koma. Í þessu tilviki er það eindregin ósk flutningsmanns, hæstv. menntamálaráðherra, að röð mála sé með þeim hætti sem fyrir liggur. Ósk flutningsmanns hlýtur að vega þyngra en annarra þingmanna og því hefur forseti orðið við þeirri beiðni.

Forseti vill enn fremur taka fram að honum er ekki kunnugt um nokkur dæmi þess að forseti gangi gegn ósk ráðherra um röð mála þegar ráðherra leggur fram lagafrumvörp um efnislega áþekk efni.