133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ekki byrjar ballið vel. Ég tek eindregið undir þá ósk frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ný lög um íslenska fjölmiðla verði rædd á undan sérlögum um Ríkisútvarpið, að sjálfsögðu. Það er fráleit ráðstöfun að ætla sér að ræða fyrst í 1. umr. ný ríkisútvarpslög á undan umræðum um ný fjölmiðlalög. Við hljótum að líta til baka eins og menn hafa nefnt.

Fjölmiðlalögin sem tekist var á um árið 2004 er eitthvert eitraðasta og illskeyttasta pólitíska átakamál á síðari tímum. Ríkisstjórn Íslands var að mörgu leyti rjúkandi rúst. Hægt er að fullyrða að átökin um það mál hafi að mörgu leyti markað endalok valdatíma þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Ríkisstjórnin hefur aldrei náð sér á strik, átakalínan lá þvert um hlaðið á Bessastöðum að lokum og nú er verið að boða nýjan ófrið í málinu með því að verða ekki við sjálfsögðum óskum stjórnarandstöðunnar um að ræða ný fjölmiðlalög fyrst og á undan sérlögum um Ríkisútvarpið. (Gripið fram í: Það myndast gjá.) Það myndist gjá á milli þings og þjóðar eins og gerðist um árið og hv. þm. Birgir Ármannsson rifjar svo upp.

Að sjálfsögðu á að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að bresti á með svo harkalegum og illvígum átökum eins og gerðist um árið. Því er það dapurlegt að hæstv. menntamálaráðherra ætli að misstíga sig í fyrsta spori með því að þvinga í gegn að fyrst verði rætt um sérlög um Ríkisútvarp áður en rætt verður um ný lög um fjölmiðla. Það er ekki hægt að slá því upp í einhverja léttvæga umræðu um málþóf og annað slíkt eins og hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna gerði áðan. Hér er um að ræða viðkvæmt og stórt mál sem varðar frjálsa fjölmiðlun í landinu, frelsi íslenskra fjölmiðla. Við sáum hvaða kyrkingartaki átti að taka þá í fjölmiðlalögunum fyrir nokkrum árum þegar allt varð hér vitlaust og ríkisstjórnin endaði á því að afnema sín eigin lög áður en þau færu fyrir dóm þjóðarinnar, eins og þau hefðu að sjálfsögðu átt að gera eftir að forseti lýðveldisins vísaði þeim þangað með málskotsrétti sínum.

Því eiga sporin að hræða og við eigum að taka mark á þeim aðvörunarröddum sem uppi eru um þau mál og að sjálfsögðu á að færa dagskrána þannig til að fyrst verði rætt um ný fjölmiðlalög og síðan sérlög um Ríkisútvarpið.