133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:33]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að ræða um fundarstjórn forseta og þá ósk sem hefur komið fram, að mér heyrist frá stjórnarliðum, ekki síst frá formanni menntamálanefndar, að því ég best fæ skilið, að þessi mál veðri rædd saman, þ.e. frumvarpið um Ríkisútvarpið og síðan frumvarpið um hin svokölluðu fjölmiðlalög.

Mig langar að rifja aðeins upp söguna. Ég sat í fjölmiðlanefndinni sem var skipuð, fjölmiðlanefndinni sem náði þverpólitískri sátt um tillögur að nýrri löggjöf um fjölmiðla hér á Íslandi, þ.e. þeirri löggjöf sem liggur fyrir hér. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að rifja það upp að í skipunarbréfi þessarar nefndar frá þeim sama hæstv. menntamálaráðherra og er hér nú í dag var undirstrikað að nefndin skyldi eingöngu fjalla um markaðsstöðu og hlutverk Ríkisútvarpsins í samhengi við aðra fjölmiðla. Þar fyrir utan átti nefndin alls ekki að fjalla um Ríkisútvarpið og hún gerði það ekki.

Á lokadögum í störfum nefndarinnar kom fram fyrsta frumvarpið um Ríkisútvarpið eins og þruma úr heiðskíru lofti og nefndin hafði aldrei á sínum starfstíma nokkurn tíma verið upplýst um það hvað hugsanlega mundi standa í því frumvarpi. Þarna var sem sagt frá upphafi vandlega aðskilið af hálfu stjórnarliða annars vegar Ríkisútvarpið og hins vegar hin almenna löggjöf um fjölmiðla, þannig að þau sögðu a og þar af leiðandi mjög eðlilegt að við segjum núna b.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að mér finnst stjórnarliðar snúa svolítið út úr málflutningi okkar stjórnarandstæðinga varðandi óskina um að þessi mál yrðu rædd samtímis. Við vorum að sjálfsögðu að tala um að þessi mál færu samhliða í gegnum þingið. Við höfum aldrei talað um að það yrði mælt fyrir þeim samtímis í einum pakka og sama umræða yrði um bæði frumvörpin, hins vegar að það yrði talað um þau samtímis, eins og mér sýnist að nú eigi að gera, og þau fari nokkurn veginn samhliða til þinglegrar meðferðar í menntamálanefnd, og það er ekki nema gott eitt um það að segja.

Ég hefði þá viljað, virðulegi forseti, að fjölmiðlafrumvarpið sjálft hefði fyrst verið tekið til umræðu í 1. umr. Það hefði verið betri áferð á því fyrir þingið og ég hygg að við hefðum þá verulega getað stytt okkur leið, þ.e. í umræðum um frumvarpið um Ríkisútvarpið. Þá hefðum við getað rætt heildstætt um starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi, mál sem við þurfum að ræða og þurfum að taka ákvarðanir um og þurfum að setja reglur um — ég er alveg sammála því, skoðanir mínar hafa ekkert breyst frá því haustið 2004. En það hefði verið miklu áferðarbetra fyrir þingið og fyrir okkur öll sem ætlum að fara að vinna að þessu að við hefðum fyrst talað um fjölmiðlafrumvarpið, síðan um Ríkisútvarpið og sent frumvörpin samhliða í menntamálanefnd og síðan farið að vinna.