133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að fá smám saman innsýn í framvinduna. Hæstv. ráðherra sagði að ekki stæði til að selja Ríkisútvarpið þrátt fyrir þessa breytingu. Ég vil vekja athygli á að flokksfélagar hæstv. ráðherra, þar á meðal á þingi, hafa sagst styðja frumvarpið vegna þess að það auðveldi sölu þegar fram líða stundir. Ekki svo að skilja að frumvarpið geri ráð fyrir því núna.

Í annan stað vil ég vekja athygli á að það er ekki rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að vel sé búið að réttindum starfsfólksins og þau séu í engu skert. Það eru sett sérákvæði um starfsmannamál er varðar takmörkun á rétti til töku lífeyris úr B-deild LSR samhliða starfi. Það eru engin ákvæði sem opna fyrir nýja félagsmenn eða engin fyrirheit um það í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þá kemur fram að biðlaunarétturinn er takmarkaður miðað við hina almennu reglu. Og varðandi pólitíkina, hæstv. forseti, þá er verið að setja Ríkisútvarpið undir hinn pólitíska hæl og fela pólitískt ráðnum (Forseti hringir.) útvarpsstjóra alræðisvald yfir starfsmannahaldi og allri dagskrárgerð.