133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:12]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Reyndar er það svo, eins og kom fram hjá hv. þingmanni Merði Árnasyni, að við erum við að ræða þetta frumvarp í þriðja skipti og því fátt nýtt sem kom fram hjá hv. þingmanni, allt atriði sem við höfum farið yfir áður. Tekið hefur verið tillit til flestra þeirra atriða sem hann tíundaði og eru þau nú í frumvarpinu og fagna ég því sérstaklega að í frumvarpinu er tekið tillit til breytinga sem meiri hluti menntamálanefndar lagði til í vor.

Vegna þess að hv. þingmaður kom inn á þátt Framsóknarflokksins í lok ræðu sinnar, rétt skaut honum að, þá er það nú þannig — og ég tók það líka fram í ræðu minni í vor og mér finnst kannski ekki mikil ástæða til að endurtaka mig, ólíkt öðrum hv. þingmönnum — að við stöndum fyllilega við stefnu Framsóknarflokksins. Á þeim tíma þegar síðasta flokksþing var haldið og við ályktuðum (Gripið fram í.) um málefni Ríkisútvarpsins þá var alveg ljóst að ástæða þess að við töldum að hægt væri að ganga lengra var ekki síst sú að aðstæður á markaði eru breyttar. Við teljum að það sé enginn pólitískur vilji fyrir því að selja Ríkisútvarpið. Ég veit ekki hve margir hv. þingmenn á Alþingi vilja það, ég vil leyfa mér að fullyrða að það er enginn hv. þingmaður í þessum sal en ég veit ekki hvað þeir eru margir allt í allt sem mundu vilja selja Ríkisútvarpið, kannski tveir. Ég held að það sé því ekki rétt að segja að Framsóknarflokkurinn sé að hossast aftan í Sjálfstæðisflokknum vegna þess að það er ekki rétt. Við stöndum við ályktun okkar um málefni Ríkisútvarpsins og stöndum fyllilega við þetta mál, sérstaklega með þeim breytingum sem hafa orðið á frumvarpinu og teljum að þær séu til góðs.