133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:52]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hóf umræðuna á því að ég teldi eðlilegt að þingið léti þetta mál til sín taka og beindi m.a. þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því. Ég taldi jafnframt að formenn þingflokkanna og formenn flokkanna ættu að ræða þetta mál sín á milli og undir það tók hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Ég tel í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þó að ríkissaksóknari ákveði að rannsaka þetta mál. Hann leggur á það sjálfstætt mat hvort hann vill gera það en þetta er afmarkað mál sem hann er að rannsaka og nær ekki heildstætt yfir þetta. Hann telur að það sé vísbending um að það hafi átt sér stað refsivert athæfi. Það er mat hans og ekkert við því að segja. Hins vegar hafa margir þingmenn talað þannig að þeir vilji fá þetta allt upp á borðið. Þannig hefur hæstv. utanríkisráðherra talað, þannig hefur hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins talað, þannig hefur þingflokksformaður Framsóknarflokksins talað og fleiri. Þess vegna spurði ég hvort það væri ekki eðlilegt að við gerðum þetta.

Hér kom hv. þm. Halldór Blöndal og sagði að embættismenn ættu til þess allan rétt að fá þessi mál upp á borðið. Ég er sammála honum. Ég er líka sammála honum um það sem hann sagði áðan að það væri skylda löggjafarvaldsins að fara ofan í þessi mál. Hvernig uppfyllir löggjafarvaldið þá skyldu sína nema með því að skipa nefnd eins og hér var talað um og var gert í Noregi? Þannig uppfyllum við skylduna, ekki bara gagnvart ráðherrum og þingmönnum heldur líka embættismönnum sem hugsanlega eru bornir sökum í þessu efni. Það er ekki hægt að búast við því að ríkissaksóknari eltist við hvert og eitt mál sem upp kann að koma, við þurfum að ná heildstætt yfir það og það er þingið sem á að gera það og uppfylla skylduna sem hv. þm. Halldór Blöndal talaði um áðan.