133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:00]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 9. þm. Suðurk., Magnúsi Þór Hafsteinssyni, fyrir að hefja þessa umræðu og greina þá jafnframt frá því sem ég hef farið yfir á fundi utanríkismálanefndar og sjávarútvegsnefndar í morgun og jafnframt kynnt fyrir forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna, að ég hef í dag ákveðið að heimila veiðar á allt að níu langreyðum og 30 hrefnum á yfirstandandi fiskveiðiári til viðbótar þeim 39 hrefnum sem teknar verða árið 2007 við framkvæmd vísindaáætlunar Hafrannsóknastofnunar, en þá verður lokið því verki sem hófst árið 2003 með 200 dýra úrtaki á hrefnu. Hér eru sem sagt að hefjast atvinnuveiðar á hval eftir áralanga bið.

Þetta er í rökréttu framhaldi af þeirri vinnu sem við höfum unnið og þeirri stefnumótun sem fram fór á Alþingi 10. mars árið 1999. Alþingi ákvað þá með mjög miklum meiri hluta að hvetja til þess að hvalveiðar skyldu hafnar hið fyrsta hér við land og alveg frá þeim tíma hefur verið unnið að því með ýmsum hætti.

Við gengum í Alþjóðahvalveiðiráðið með tilteknum fyrirvörum. Nú er ljóst að fyrirvararnir hafa að fullu tekið gildi. Þjóðréttarlegar heimildir okkar til að hefja hvalveiðar eru að öllu leyti til staðar. Meðal annars fólu þessir fyrirvarar það í sér að við mundum ekki hefja atvinnuveiðar á hval fyrr en eftir árið 2005. Árið 2006 er runnið upp og allar forsendur eru til staðar til að hefja veiðarnar.

Við höfum líka farið á þann hátt í málin að við höfum reynt að stíga hvert skref mjög varlega. Við hófum vísindaveiðar árið 2003. Þær hafa smám saman aukist. Á þessu ári var tekin um það ákvörðun í upphafi að heimila veiðar í vísindaskyni á 50 hrefnum. Í ágústmánuði var sá fjöldi aukinn upp í 60 dýr þannig að það er ljóst mál að við höfum verið að stunda umtalsverðar hvalveiðar hér við land og það er athyglisvert að viðbrögðin við þeim hafa verið næsta lítil. Við höfum ekki fengið yfir okkur þá holskeflu mótmæla sem margir óttuðust og það er vissulega vel.

Við höfum vitaskuld farið mjög að þeim ráðum sem við höfum viljað þiggja í þessum efnum, þ.e. ráðum sérfræðinga. Hafrannsóknastofnun hefur metið stærð hvalastofna, hrefnu og langreyðar, og vísindanefndir Alþjóðahvalveiðiráðsins og Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins NAMMCO hafa báðar samþykkt það mat að 44 þúsund hrefnur séu á landgrunni við Ísland og 26 þúsund langreyðar í miðju Norður-Atlantshafi.

Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að við getum árlega veitt með sjálfbærum hætti allt að 200 langreyðar og 400 hrefnur. Við erum að stíga agnarsmátt skref einfaldlega í anda þess sem við höfum verið að reyna að gera í þessum efnum, þ.e. að stíga varlega til jarðar og taka stutt skref en ákveðin að því markmiði að hér séu stundaðar atvinnuveiðar með sjálfbærum hætti alveg eins og við teljum eðlilegt að nýta auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti.

Við erum ekki heldur í neitt í amalegum félagsskap. Aðrar þjóðir sem starfa innan Alþjóðahvalveiðiráðsins líkt og við stunda hvalveiðar, þ.e. Bandaríkin, Rússland, Noregur, Japan og Grænland. Þær stunda allar löglegar og sjálfbærar veiðar í samræmi við reglur Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Ég nefndi það hér áðan að sá fyrirvari sem við settum í upphafi þegar við gengum í Alþjóðahvalveiðiráðið er núna virkur þannig að þjóðréttarleg staða okkar er alveg skýr. Við höfum allar heimildir okkar megin. Að þessu leytinu er staða okkar algerlega sambærileg við það sem er hjá Norðmönnum sem hafa eins og menn vita stundað hvalveiðar um árabil.

En vegna þess að við höfum ekki stundað hvalveiðar í atvinnuskyni mjög lengi þá höfum við ekki verið að hyggja að því lagaumhverfi sem hvalveiðarnar þurfa að búa við til lengri tíma og jafnframt þessari ákvörðun hyggst ég undirbúa lagafrumvarp þar sem reynt er að sníða starfsumhverfi hvalveiðanna að nútímanum, bæði varðandi veitingu veiðileyfanna og eins til að vel sé að öllu staðið hvað vinnsluþáttinn áhærir. Þetta frumvarp hyggst ég leggja fram síðar í vetur og þá er eðlilegt að mínu mati að endurskoða þær aflaheimildir sem ég hef núna þegar gefið út í kjölfar þess að ný lög verði samþykkt hér á Alþingi ef svo vel tekst til sem ég held að sé ákaflega þýðingarmikið.

Ég geri ekki lítið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kunna að verða af þessari ákvörðun. Við gerum okkur grein fyrir því að þrátt fyrir að hér á landi sé allt að því þjóðarsátt um þessi mál þá er andstaða við þessi mál sums staðar erlendis. Sú andstaða hefur sem betur fer ekki birst okkur í miklum mæli enn þá. Við skulum hins vegar búa okkur undir að hér komi mikil mótmæli. Við höfum verið að reyna að undirbúa okkur undir þetta með því að leggja heilmikla vinnu í hvers konar upplýsingaöflun, gagnasöfnun og undirbúning að því að svara þessu og vekja athygli þar með jákvæðum hætti á málstað Íslendinga. Ég tel því að þegar fram í sækir muni þessi góði málstaður sigra eins og alltaf gerist að lokum.