133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:07]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég undrast nokkuð hvaða stefnu þessi hvalveiðimál okkar eru að taka núna á síðustu klukkutímum. Ég hlýt að gagnrýna það mjög harðlega að þá fyrst er boðað til fundar meðal annars með utanríkismálanefnd þegar hvalveiðiskipið er farið á veiðar. Það má nú með sanni kalla samráð eftir á.

Það er engin deila um það að við Íslendingar ætlum að halda til haga rétti okkar til að nýta sjávarspendýr eins og aðrar nytjategundir í lífríkinu. Það höfum við reyndar gert, m.a. með hrefnuveiðum að undanförnu, veiðum í vísindaskyni sem reyndar mönnum sýnist sitt hvað um. Hitt er talsvert annað mál hvort það er skynsamlegt og jafnvel hvort okkur er heimilt vegna aðildar okkar að alþjóðasamningum eins og alþjóðahafréttarsáttmálanum, náttúruverndar- og viðskiptasamningum, svo og vegna stöðu okkar eftir endurinngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið, að hefja núna veiðar á stórhval í atvinnuskyni. Ég hef miklar efasemdir um að það sé ráðlegt á þessum tímapunkti meðan nokkur óvissa ríkir enn að mínu mati um þjóðréttarlegar skuldbindingar, meðan alls óvíst er að hægt sé að koma afurðum í verð og við gætum jafnvel lent í verulegum vandræðum af þeim sökum.

Það er nokkuð ljóst að lítils háttar atvinnuveiðar munu ekki gefa af sér nema smáar fjárhæðir og þar af leiðandi er allt eins líklegt að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Við verðum fyrir miklu meira tjóni á öðrum sviðum atvinnulífs okkar heldur en þessar takmörkuðu veiðar að minnsta kosti geta gefið af sér.

Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs getum ekki mælt með því að ráðist verði í veiðar nú við þessar aðstæður og ekki stutt það á þessum tímapunkti.