133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hvalurinn er alþjóðlegt tákn fyrir umhverfisvernd og hvalir eru alþjóðlegt tákn fyrir verndun dýra í útrýmingarhættu. Það ríkir hvalveiðibann á úthöfunum. Mér finnst þetta vera dapurlegur dagur, frú forseti. Það er auðvitað ákveðin skynsemi í því að halda til haga sögulegum og þjóðréttarlegum rétti okkar til að nýta tegundir hér við land. En að hefja hvalveiðar nú með þau rök helst í farteskinu að hvalir spilli fyrir afrakstursgetu fiskstofna Íslands, það eru rök sem eru algjörlega út í hött og dæma sig sjálf.

Ég tel ekki rétt að styðja hugmyndir um atvinnuveiðar á hvölum þegar svona stendur á eins og hér háttar nú til. Þegar samanlagðir hagsmunir Íslendinga og markaðsstaða varðandi hvalaafurðir eru lögð til grundvallar er það að mínu mati út í hött.

Forstöðumaður landvinnslu Samherja hélt því fram á fundi um daginn að 200–400 hrefnur breyttu engu fyrir afrakstursgetu fiskstofna á Íslandsmiðum. Hins vegar gæti slík veiði haft þau áhrif að viðskiptavinir Samherja í Bretlandi, Sainsbury's, Marks & Spencer og fleiri ámóta aðilar, færu fram á verðlækkun á fiski frá Íslandi á þeirri forsendu að það sé orðið erfiðara að selja afurðirnar. Jafnvel þó að sú yrði ekki raunin gætu þeir samt knúið fram slíka lækkun. Slík verðlækkun væri bein afleiðing af skaddaðri ímynd okkar og framleiðsluvara okkar, og ég á ekki von á að sjávarútvegsfyrirtækin taki þessu með þegjandi þögninni. Hvalaskoðunarfyrirtækin gera þetta, samtök ferðaþjónustunnar gera það ekki. Hvalaskoðunarfyrirtæki stunda í dag sjálfbæra nýtingu á hvölum og við vitum í gegnum þau að hegðun hrefnunnar á Faxaflóa hefur breyst vegna þess að 25% þeirra dýra sem hafa verið tekin hafa verið tekin á Faxaflóa (Forseti hringir.) og hrefnan er hætt að koma upp að hvalaskoðunarbátunum eins og hún gerði fyrir 2003.