133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:21]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Hvort heldur fólk lítur á þennan dag sem dapurlegan eða gleðilegan dag þá er þetta sögulegur dagur þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur tekið þá ákvörðun sem hér er til umræðu. Sannarlega hef ég mikið álit á hæstv. ráðherra en ekki hvarflaði að mér að hann væri svo hugmyndaríkur að með þessari ákvörðun væri verið að fela allt það sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir taldi hér upp.

Þessi ákvörðun á ekki að koma neinum á óvart eins og hér hefur verið rakið. Hér hefur hæstv. ráðherra verið að fylgja eftir ákvörðun frá hv. Alþingi og í umræðum úr þessum ræðustóli, fleiri en einni og fleiri en tveimur, hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra verið skammaður fyrir að fylgja ekki eftir ákvörðunum Alþingis. Það á því ekki að koma neinum á óvart að þessi ákvörðun skuli tekin.

Hér stangast að sjálfsögðu á nokkur sjónarmið. Það er í fyrsta lagi sjónarmið um veiðar, að við getum stundað sjálfbærar veiðar sem eru hluti af sjálfsákvörðunarrétti þjóðar og það er auðvitað fjöregg okkar sem við megum aldrei líta frá. Hins vegar stangast það sjónarmið á við sjónarmið ferðamennskunnar, sem fulltrúar ferðamennskunnar hafa haldið á lofti, t.d. hvalaskoðun og þá ekki síður markaðssjónarmiðin á erlendri grundu. Ég vil þess vegna taka undir það sem aðrir hafa nefnt að hér er varlega stigið til jarðar, hér er verið að fylgja eftir ákvörðun Alþingis. En ég vil jafnframt leggja áherslu á að samhliða þessari ákvörðun verði skilgreind vel þau svæði þar sem hvalaskoðun er stunduð og þau vel aðgreind frá veiðisvæðum á hval og jafnframt verði kynningarstarfi bæði innan lands og ekki síst erlendis, eins og í bígerð er, og að því verði vel fylgt eftir. Þannig munum við ná bestum árangri í þessu viðkvæma máli.