133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:23]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta voru svo sannarlega ánægjuleg tíðindi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra flutti okkur úr ræðustól: Ísland hefur hafið veiðar á nýjan leik á stórhvelum. Þar með er lokið allt of löngu tímabili sem liðið hefur án þess að við nýttum með sjálfsögðum hætti þessa nytjastofna og ég tel að þetta sé mikið framfaraskref.

Ég hef í sjálfu sér ekkert miklar áhyggjur af því að við munum þurfa að bíða skaða vegna þess ef við höldum rétt á spilunum, ef við stöndum saman, kynnum málstað okkar út á við, þá hef ég í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því að þetta verði okkur til tjóns. Það er sjálfsagt og eðlilegt að nýta þessi dýr alveg eins og við nýtum dýr til að mynda uppi á landi, hreindýr, dádýr, önnur spendýr. Hvalir eru ekkert öðruvísi en þessi dýr og það er sjálfsagður og eðlilegur hlutur að þeir séu nýttir alveg eins og önnur dýr. Við eigum ekkert að hlusta á eitthvert kjaftæði um að hér sé verið að ganga of nærri náttúrunni, það er alls ekki rétt. Það er mjög mikið af hval í hafinu allt í kringum Ísland, maður þarf ekki annað en bregða sér hérna rétt út á sjó til að sjá það. Þær stórhvalaveiðar sem hefjast núna fara fram í úthafinu, djúpt austur af landinu, og þær munu á engan hátt rekast á við hagsmuni þeirra sem stunda hvalaskoðun.

Virðulegi forseti. Ég tel að það hafi verið mikil mistök þegar Alþingi samþykkti hér í þessum sal árið 1986 að mótmæla ekki alþjóðahvalveiðibanninu. (Gripið fram í.) Já, 1983, það var samþykkt að hætta frá og með 1986. Þetta voru mikil mistök sem við erum enn þá að súpa seyðið af. Fram undan er mikil vinna, mikil barátta, við skulum ekkert reyna að draga fjöður yfir það, það er mikil vinna fram undan en ég lýsi því hér með yfir að Frjálslyndi flokkurinn mun styðja þá baráttu með ráðum og dáð og starfa að því að sjá til þess að sá slagur muni vinnast og þetta muni ekki verða okkur Íslendingum til tjóns. Við getum ekki látið erlenda hagsmunahópa segja okkur fyrir verkum þegar nýting okkar á þessum nytjastofnum er annars vegar. Gildir þá einu hvort um er að ræða fiskstofna, hvalastofna eða aðra dýrastofna. Við getum ekki látið erlenda hagsmunaaðila segja okkur fyrir verkum í þessum efnum. Við eigum að stjórna þessu sjálf, við erum sjálfstæð þjóð, um þetta snýst málið. Þetta er stórmál.

Þó að við séum aðeins að tala hérna um níu hvali á þessu fiskveiðiári, vonandi verða þeir fleiri, þá er þetta miklu, miklu meira mál en svo að það snúist bara um þessi tilteknu dýr. Þetta er stórmál, þetta varðar sjálfstæði þjóðarinnar í framtíðinni. Þetta varðar það hvernig við Íslendingar getum nýtt okkar náttúruauðlindir í framtíðinni. Um það snýst málið, virðulegi forseti.