133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:57]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða enn einu sinni um Ríkisútvarpið, ekki í fyrsta sinn og örugglega ekki í það síðasta. Ég þarf í sjálfu sér ekki að halda langar tölur um frumvarpið enda í þriðja sinn sem það kemur hér til umræðu að meginuppistöðu til þó að í hvert skipti hafi það tekið ákveðnum breytingum og þroskast og breyst eins og gengur með frumvörp sem teljast mikilvæg. Fyrri frumvörp hafa fengið afskaplega ítarlega umfjöllun og umræðu í þingsölum og þá ekki síður í hv. menntamálanefnd. Ýmsir umsagnaraðilar hafa sent nefndinni álit og margir gestir komið á fund hennar. Hv. þingmenn hafa líka rætt þetta mál í þaula. Ég tel því ekki ástæðu til að halda langar ræður en langar þó til að víkja að atriði sem nokkrir hv. þingmenn hafa gert að útgangspunkti. Það er spurningin um það hvort með frumvarpinu sé verið að leggja drög að sölu Ríkisútvarpsins eða ekki.

Í rauninni, virðulegur forseti, finnst mér það óheiðarlegur málflutningur þegar þingmenn koma hver á fætur öðrum og fullyrða að til standi að selja þá þjóðargersemi sem Ríkisútvarpið sannarlega er. Mér vitanlega er enginn þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi með áætlun um að selja Ríkisútvarpið, hafa ekki vilja til þess eða áhuga á því og sameinast um það þverpólitískt að halda uppi öflugu ríkisútvarpi. Ég lít svo á að það sé meginhlutverk frumvarpsins að styrkja og efla Ríkisútvarpið. Í framsöguræðu hæstv. menntamálaráðherra, sem er flutningsmaður frumvarpsins, kom það sjónarmið mjög skýrt fram. Að halda öðru fram þjónar einhverjum öðrum hvötum. Menn eru sjálfsagt að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur með því.

Það má segja að þvert á móti sé með frumvarpinu verið að festa í sessi ríkiseign á þeirri mætu stofnun sem Ríkisútvarpið er með því beinlínis að taka það fram að óheimilt sé að selja það. Með því er að sjálfsögðu verið að gefa afskaplega skýr skilaboð og hefðu menn ætlað sér eitthvað annað stæði annað í frumvarpinu. Það er þannig að ef vilji verður til þess, sem augljóslega er ekki á Alþingi í dag, að selja Ríkisútvarpið munu menn gera það. Sá vilji er ekki til staðar og mér er mjög til efs að fyrir því verði meiri hluti á hv. Alþingi að selja Ríkisútvarpið. Af ástæðum sem hafa verið raktar og eru raktar í frumvarpinu, m.a. í ítarlegri greinargerð; vegna menningarlegs hlutverks þess, vegna öryggishlutverks þess og lýðræðishlutverks þess. Það þjónar öðrum lögmálum en hinir markaðsreknu fjölmiðlar sem gegna öðru hlutverki. Það fylgir ekki markaðslögmáli en er sannarlega í harðri, bullandi samkeppni við markaðsfjölmiðlana, samkeppni um hlustun og áhorf.

Hér er sem sagt fyrst og fremst verið að breyta um form. Við getum endalaust deilt um það hvaða form er réttast og hvaða form er best varðandi rekstur á opinberri stofnun, á ríkisstofnun. Menn geta haft og hafa ýmsar skoðanir á því. Minn flokkur hefur sannarlega ekki farið varhluta af því að þar eru ólíkar skoðanir. Á síðustu þremur flokksþingum hefur farið fram mjög ítarleg og mikil vinna varðandi framtíð Ríkisútvarpsins. Niðurstaðan er ávallt sú sama, að það skuli vera í ríkiseigu.

Á síðasta flokksþingi varð niðurstaðan sú eftir mjög vandlega og mikla vinnu sérstaks vinnuhóps, sem lagði fram tillögur fyrir flokksþingið, að breytt var fyrri ályktunum eins og gengur og gerist hjá lifandi flokkum. Þar var engin afstaða tekin til rekstrarforms, með öðrum orðum er opnað fyrir nánast hvaða rekstrarform sem er en útgangspunktur og skilyrði að eignarhaldið sé ávallt skýrt. Það er gert í þessu frumvarpi með því ákvæði sem ég gat um áðan og því formi sem hér er valið og heitir opinbert hlutafélag. Með öðrum orðum eru menn að finna sér farveg fyrir ríkisstofnanir, stofnanir sem ætlunin er að verði í eigu ríkisins en geti notfært sér kosti hlutafélaga. Það er nú samt svo, svo merkilegt sem það hljómar, að í hvert skipti sem hugtakið hlutafélag ber á góma hleypur eins og hland fyrir brjóstið á ýmsum aðilum.

Við verðum að hafa í huga að hlutafélagaformið hefur reynst afskaplega vel í samfélagi okkar. Það hefur reynst vel að því leyti til að það getur verið afskaplega dínamískt og sveigjanlegt og menn geta fljótlega brugðist við breyttum aðstæðum. Ég lít svo á að með þessu formi sé verið að skapa Ríkisútvarpinu aukinn sveigjanleika til að standast harða og mikla samkeppni sem það á í. Það stendur sig prýðilega í þeirri samkeppni en gæti staðið sig enn betur og mun ugglaust standa sig enn betur. Þar að auki er mikilvægt að það er líka verið að skerpa á stjórninni, það er verið að ganga út frá því að einn kapteinn sé á skútunni en ekki margir eins og segja má að séu í dag. Það hefur oft komið fram í umræðunni að það eru hin óljósu mörk um stjórn Ríkisútvarpsins — í allri stjórnunarumræðu held ég að menn séu sammála um að það er mjög mikilvægt að skerpa stjórnunarstrúktúr og það sé klárt hver stjórni, hver beri ábyrgð og þar fram eftir götunum. Það hefur alls ekki verið ljóst, það hefur verið nokkuð á reiki og hefur sannarlega háð þessari stofnun.

Ég tel afskaplega merkilegt og ánægjulegt að sá samningur sem hæstv. menntamálaráðherra á grundvelli frumvarpsins hyggst gera við Ríkisútvarpið — ég tel hann vera afskaplega jákvæðan og fela í sér margt sem skírskotar til framtíðarhlutverks Ríkisútvarpsins. Tekið er á því sem kom fram í fyrri frumvörpum þar sem hlutverk þess var talið kannski um of opið og óljóst. Við þurfum að hafa í huga að þegar lög eru fyrst sett hér um ríkisútvarp eru allt aðrar aðstæður en nú. Þá var aðeins um eitt útvarp að ræða, það var útvarpið með stórum staf nánast. Nú eru útvarps- og sjónvarpsstöðvar orðnar margar, ekki bara innlendar heldur erlendar. Hin merka og mæta stofnun sem hefur starfað í áratugi er ekki bara að keppa við innlendar stöðvar, hún er líka að keppa um áhorf og hlustun við erlendar stöðvar og nútímatækni. Það er því mjög mikilvægt fyrir þá stofnun að hafa sveigjanleikann, geta brugðist við, geta staðist þessa samkeppni, hafa góða stjórnun og skýrt hlutverk. Samningurinn sem hæstv. ráðherra hefur kynnt felur það m.a. í sér.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta skipta miklu máli í upphafi þessarar þriðju atlögu að því að mæla fyrir þessu frumvarpi. Ég tel ekki þörf á að lengja umræðuna frekar, öll meginsjónarmið hafa komið fram. Ég legg áherslu á að við lítum á það, þingmenn Framsóknarflokksins, að með þessu sé verið að styrkja grunninn að ríkisútvarpi í þjóðareign eins og það hefur verið og mun verða, en með breyttu rekstrarformi muni það geta plumað sig enn betur í harðri samkeppni um hylli áhorfenda og hlustenda.