133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:19]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en ég verð að endurtaka spurninguna að því leytinu til: Hvaða dæmi um rekstur í almannaþjónustu eru um það á Íslandi, eða sem þingmaðurinn getur talið til, sem hafa gefist svona vel og eru heppileg utan um almannaþjónustu af þessu tagi? Hvaða dæmi? Það þýðir ekki að vísa á hinn frjálsa markað þar sem fjöldinn allur af fyrirtækjum er rekinn í hagnaðarskyni sem hlutafélög að sjálfsögðu. Hvar hefur það gefist svona vel að reka almannaþjónustu af þessu tagi sem er ekki í ágóðaskyni — og það á ekki að selja útvarpið? Hvaða dæmi getur hv. þingmaður nefnt okkur akkúrat um það?

Hann gaf til kynna að kostirnir sem verið væri að sækjast eftir væru þeir að líklega væri auðveldara að reka fólk og ráða en í núverandi fyrirkomulagi. En hann verður að útskýra þetta aðeins betur, hv. þingmaður. Hvar eru dæmin sem tekin eru til að réttlæta þetta og gera að þeim álitlega kosti sem hann dregur upp?