133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka menntamálaráðherra ágæta ræðu, ég á ekki við andsvörin heldur ræðuna sjálfa sem er sennilega sú besta sem hún hefur haldið um þetta efni og ég hef hlustað á. Það er leiðinlegt að geta ekki haldið áfram umræðu, samræðu við hæstv. menntamálaráðherra eftir þessa ræðu þar sem hún ræddi ýmislegt sem þörf væri á að eiga frekari skoðanaskipti um.

Ég bað sérstaklega um það í ræðu minni áðan að hæstv. menntamálaráðherra reifaði eitt af því sem við höfum beðið margoft um, þ.e. rökin fyrir því af hverju Ríkisútvarpinu ætti að líða betur, hvað það ætti að græða á því að verða að hlutafélagi. Hæstv. menntamálaráðherra, þrátt fyrir það hrós sem ég hafði um hana áðan, gerði það með þeim hætti að annars vegar tók hún sér töluverðan tíma í að segja okkur frá því að hlutafélagsformið á Íslandi væri þekkt form og nefndi til tvö fyrirbæri, Háskólann í Reykjavík og Félagsbústaði, sem fást nú við aðra hluti en Ríkisútvarpið, sem dæmi um hvað þetta væri þekkt form og hins vegar sagði hún síðar í ræðunni að hlutafélagsformið væri til þess að styrkja Ríkisútvarpið í meginhlutverki sínu. Það þriðja sem hæstv. menntamálaráðherra sagði um þetta var að hún var farin að vitna í Evrópuráðið, hún var búin að uppgötva Evrópuráðið í sumar. Það veit ég um Evrópuráðið að það hefur aldrei mælt með því sérstaklega að til verði hlutafélagsform í kringum Ríkisútvarpið, þó að það sé auðvitað til í ríkisútvörpum með aðra hefð en okkar, af því við vorum að ræða um hefðina líka.

Það sem ég vil fá að vita er: Hvað er það í þessu andsvari, þó ekki sé annað, sem er svona gott við hlutafélagsformið, hvað er það sem RÚV græðir á því? Vegna þess, forseti, að hér kom fram í ræðu minni og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að við erum reiðubúnir og flokkar okkar til að beita okkur eftir megni ef hæstv. menntamálaráðherra fellur frá hlutafélagaþráhyggju sinni í málinu.