133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:26]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag eða eitthvert annað rekstrarform, það er hæstv. menntamálaráðherra sem hefur staðið fyrir því núna á þremur þingum að gera það. Það dugir ekki fyrir hæstv. menntamálaráðherra að svara spurningu minni um „af hverju“ með spurningunni „af hverju ekki“. Það stendur upp á hæstv. menntamálaráðherra að skýra það út — fyrst það gerist ekki í þessari umræðu verður það að gerast í 2. umr. og 3. umr. um málið og á næsta þingi og þarnæsta þingi ef við förum svo langt — af hverju á að breyta þessu í hlutafélag. Hin almennu rök gilda ekki vegna þess að hlutafélagið, eins og ég rakti í ræðu minni í kvöld — ég er tilbúinn að tala um þetta, bæði af hverju og af hverju ekki — er ósköp einfaldlega ekki almennt. Í raun er búið að tína af því allar þær fjaðrir sem prýða eitt venjulegt hlutafélag, sem er vissulega þekkt form og ágætt fyrir fyrirtæki sem eru í samkeppnisrekstri á markaði. Þetta fyrirtæki er það ekki, eða hvað? Er það þannig? Þá stendur ekki steinn yfir steini í hugsun menntamálaráðherra um málið.

Þess vegna vil ég ósköp einfaldlega fá að vita — meira en það að hún sé einfaldlega sannfærð, meira en það að hlutafélagsformið sé þekkt form og meira en það að hún telji að það muni styrkja Ríkisútvarpið í meginhlutverki sínu — hvers vegna hlutafélagsformið á Ríkisútvarpinu er betra en annars vegar sjálfseignarstofnunarformið eða þá ríkisstofnunarformið eins og nú er með þeim breytingum sem hægt er að gera á því innan ramma laganna.

Ég hef heyrt þær skýringar að það sé til þess að auðveldara sé að reka menn og ráða nýja, það séu launakjörin og það séu starfsaðstæðurnar. Það er sjálfsagt eitthvað til í þessu, menntamálaráðherra verður að svara því. Ég held að það sé til að koma á þessu vitleysislega stjórnskipulagi sem til þess er ætlað, hvort sem hæstv. menntamálaráðherra veit það eða ekki, að halda áfram hinni pólitísku stjórn á Ríkisútvarpinu þannig að það færi sig ekki um of frá Sjálfstæðisflokknum sem á að halda um öll völd í fjölmiðlun hér eftir sem hingað til.