133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

störf hjá Ratsjárstofnun.

181. mál
[13:48]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og góð ráð sem hér komu fram. En ég vil segja að ef þessi ákvörðun og þessi breyting snýr að einhverju leyti að byggðamálum þá er það í raun byggðastefna Bandaríkjastjórnar sem þarna á í hlut.

Eins og hv. þingmenn hljóta að vita eru það ekki íslensk stjórnvöld sem reka umrædda stofnun. (Gripið fram í.) Þegar Bandaríkjamenn draga saman í rekstri og skammta þessari stofnun minna fjármagn en áður er bara eitt ráð til. Það er að draga saman í rekstri. Það var gert.

Svo má líka segja að þau störf sem lögð voru niður á þessum stöðum, sem er sársaukafullt, það geri ég mér allra manna best grein fyrir, eru ekki endilega þau sömu störf og viðkomandi var boðið að taka á Miðnesheiði. Svo var ekki. Við skulum líka hafa það í huga að verið var að fækka störfum þar um kannski allt í allt upp undir þúsund. En enginn talar um það í þessari umræðu. Kannski gæti það verið eitthvað sem hefði komið við á því svæði.

Þetta er í rauninni ósköp einfalt mál, en engu að síður er það sársaukafullt. Það þarf að draga saman í rekstri þessarar stofnunar. Hvað gerist eftir 15. ágúst næstkomandi er óljóst á þessari stundu. Íslensk stjórnvöld munu að sjálfsögðu ræða það við Bandaríkjamenn að halda áfram að koma að þeim rekstri, að hve miklu leyti sem það verður. Auk þess er ekki ólíklegt að rætt verði við Atlantshafsbandalagið um að gera það einnig, þar sem við teljum að þarna sé um mikilvæga starfsemi að ræða í sambandi við loftvarnir og það að fylgjast með því svæði sem er hér norðan við okkur.

Þetta eru aðalatriði málsins (Forseti hringir.) og ekki óeðlilegt að þetta sé rætt á hv. Alþingi.