133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

215. mál
[13:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þórdís Sigurðardóttir) (S):

Virðulegi forseti. Á Íslandi eru reknar tvær flugmálastjórnir. Annars vegar Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli sem heyrir undir utanríkisráðuneytið og hins vegar Flugmálastjórn Íslands sem heyrir undir samgönguráðuneytið.

Starfssvið þessara tveggja flugmálastjórna eru mjög lík en meðan á veru varnarliðsins stóð þótti ákveðið hagræði í að hafa stofnanirnar tvískiptar undir sitt hvort ráðuneytið.

Keflavíkurflugvöllur þjónaði að stórum hluta herflugi vegna varnarsamningsins við Bandaríkin og aðildar íslenska ríkisins að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Nú eftir brotthvarf varnarliðsins frá Keflavík tel ég að forsendur þess að halda úti tveimur stofnunum með sömu markmið og starfsemi séu brostnar. Að sameina Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli Flugmálastjórn Íslands tel ég að mundi stuðla að einfaldari stjórnsýslu. Sameiginleg eining yrði sterkari og markvissari og hægt væri að samnýta sérfræðiþekkingu starfsmanna á þessum tveimur vinnustöðum. En það er alveg ljóst að verkefni starfsmanna hjá þessum stofnunum skarast á fjölmörgum sviðum.

Einnig má nefna einkennilega aðstöðu sem Flugmálastjórn Íslands er í, að bera faglega ábyrgð á flugumferðarþjónustu sem innt er af hendi í Keflavík án þess að koma að nokkru leyti við stjórn eða skipan fyrirtækisins. Ég tel að sameining hefði í för með sér fjárhagslegan sparnað. Öll flugmál mundu lúta einu ráðuneyti og Keflavíkurflugvöllur og málefni hans verða loksins hluti af samgönguáætlun.

Á nýafstöðnu flugþingi sem haldið var í byrjun október lýstu flugrekendur áhyggjum sínum af kostnaði við þjónustu, flugvernd og eftirlit sem mun fara vaxandi þar sem sífellt fleiri öryggisstaðla þarf að uppfylla. Á flugþinginu kom einnig skýrt fram eindreginn vilji, bæði flugrekenda og þeirra sem veita flugumferðarþjónustu, flugöryggissvið og flugvallasvið, að sameining þessara tveggja stofnana undir eitt ráðuneyti væri nú tímabær, ekki síst sökum þeirrar hagræðingar sem í henni felst og gæti komið til móts við aukinn kostnað samfara hertum öryggiskröfum.

Nú er búið að segja varnarsamningnum upp og ekkert því til fyrirstöðu að fækka ríkisstofnunum um eina. Vil ég því beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvenær þess er að vænta að Flugmálastjórn Íslands taki yfir Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli.