133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

215. mál
[14:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er hverju orði sannara að kröfurnar sem gerðar eru til þessarar þjónustu eru stöðugt að aukast og mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að standa vel að henni. Það höfum við vissulega gert. Þess vegna hefur ferðaþjónustan og flugstarfsemin á nánast öllum sviðum verið að aukast. Hér hefur vaxið upp feiknalega öflugur hópur sem hefur mikla reynslu og þekkingu bæði á sviði flugumsjónar og margs konar starfsemi sem fer fram í Keflavík, á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík og varðar þjónustu við millilandaflugið. Í því ljósi er ekki undarlegt að okkur Íslendingum hefur verið falið mjög mikilvægt verkefni á sviði flugumsjónar á Norður-Atlantshafi með sérstökum samningi við Alþjóðaflugmálastofnunina sem gerir miklar kröfur til okkar um þá þjónustu. Ég tel að starfsfólkið sem þar starfar hafi staðið afskaplega vel undir þeim væntingum og þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem sinna flugumsjóninni. Ég hlýt að nota tækifærið til að láta það koma hér fram.

Ég á von á því að í framtíðinni verði ef til vill hægt að auka þessa starfsemi alla. Við erum meðal annars í útrás ef svo mætti segja á vettvangi flugumsjónar og flugvallarrekstrar. Flugmálastjórn Íslands hefur tekið að sér verkefni erlendis bæði í Kosovo og Kabúl þannig að okkar fólk er út um víðan völl í veröldinni að nýta þekkinguna í þágu uppbyggingar og frekari starfsemi íslenskra flugmála. Fyrir það hljótum við að vera þakklát.