133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

fötluð grunnskólabörn.

103. mál
[14:10]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Foreldrar fatlaðra grunnskólabarna eiga við það óviðunandi ástand að stríða að fá ekki gæslu fyrir börn sín að loknum skóladegi. Hvernig bregðumst við við? Jú, málið er í nefnd í eitt og hálft ár og það er enn þá óleyst.

Ég fagna þeim vilja sem lýsir af orðum nýs félagsmálaráðherra og treysti því að orð hans hér um að samkomulag sé innan seilingar standi og eftir þeim verður gengið í þinginu. En ég hlýt líka að kalla eftir því að við tryggjum þessum börnum og unglingum réttinn til þessarar þjónustu með lögum en undirseljum þau ekki samningum eða velvild sveitarfélaganna og ríkisins á hverjum tíma. Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að hafa forgöngu um þær lagabreytingar og fullvissa hann um að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan mun liðka fyrir afgreiðslu slíks máls í þinginu.