133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

205. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég lýsti því hér áðan að 45 ár eru liðin síðan fyrst voru sett lög um launajafnrétti kynjanna. Ég held að í grófum dráttum megi segja að við stöndum í sömu sporum og þá. Launamisréttið hefur einungis tekið á sig aðra mynd með duldum greiðslum og fríðindum o.s.frv. og það er alveg sama hve oft lög eru sett um launajafnrétti kynjanna, sem hefur verið gert margsinnis á síðustu 45 árum. Unnar eru 100 skýrslur og kannanir, settar fram framkvæmdaáætlanir o.s.frv. en við stöndum í sömu sporum. Hæstv. ráðherra lýsir því yfir að nú muni ný könnun líta dagsins ljós og meginboðskapur hennar sé að áfram sé stöðnun ríkjandi í að koma á launajafnrétti kynjanna. Þetta gengur ekki, virðulegi forseti, og ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum að ræða þá könnun sem hæstv. ráðherra boðar. Ég mun í framhaldi af þessari umræðu óska eftir umræðu utan dagskrár um þessa könnun ráðherra og það á að ræða frekar þessi mál. Það er komið að því, virðulegi forseti, að við þurfum að setja fram róttækar breytingar til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Hið opinbera er ekkert betra en almenni vinnumarkaðurinn. Það hefur stuðlað, með duldum greiðslum og fríðindum, að launamisrétti kynjanna.

Það kemur fram í þeirri tillögu sem ég lýsti áðan að konur sem starfa hjá einkafyrirtækjum eru með 35% hærri laun en konur í sambærilegu starfi og með sambærilega menntun hjá því opinbera. Hið opinbera þarf að taka til í sínum ranni. Ég vek athygli á því að tvö og hálft ár eru liðin frá því að þessi framkvæmdaáætlun átti að hefjast og eitt og hálft ár er eftir af þeim tíma sem hún á að vera í gildi. Ráðherra boðar að vísu endurskoðun hennar en lítið annað hefur verið gert en það sama og gert hefur verið undanfarin ár og áratugi, að setja fram skýrslur og kannanir.

En við þurfum að fá að ræða þetta við hæstv. ráðherra frekar þegar ég er búin að leggja inn þessa beiðni um utandagskrárumræðu.