133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

rannsóknarboranir á háhitasvæðum.

160. mál
[14:36]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spyr mig tveggja spurninga. Fyrri spurningin lýtur að því hvaða umsagnir ráðuneytið hafi gefið iðnaðarráðuneytinu vegna umsókna um rannsóknarleyfi vegna orkuöflunar á háhitasvæðum og tímabilið er 2004–2006. Svo háttar til að á þessu árabili hefur umhverfisráðuneytið gefið umsagnir um átta erindi frá iðnaðarráðuneytinu um umsóknir um leyfi til rannsóknarborana vegna orkuöflunar á jarðhitasvæðum, bæði á háhita- og lághitasvæðum. Svar mitt er í átta liðum.

1. Umsókn Hitaveitu Suðurnesja um nýtingu háhita innan iðnaðarsvæðisins á Reykjanesi var svarað 11. mars 2004. Í umsögn sinni gerði ráðuneytið ekki athugasemd við að veitt yrði leyfi innan iðnaðarsvæðisins á Reykjanesi enda yrði út frá því gengið að skilyrði í úrskurði ráðuneytisins um nýtingu jarðhita á Reykjanesi frá 17. maí 2000, og samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og öðrum lögum og reglum, verði fylgt.

2. Umsókn Landsvirkjunar vegna jarðhita við Gjástykki í Mývatnssveit var svarað af hálfu ráðuneytisins 8. desember 2004 og 25. janúar 2005 en í því tilviki gerði umhverfisráðuneytið ekki athugasemd við að veitt yrði leyfi á grundvelli umsóknarinnar.

3. Umsókn Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknarleyfi fyrir orkuöflun í Brennisteinsfjöllum var svarað 3. júní 2006. Í því tilviki lagðist umhverfisráðuneytið gegn því að veitt yrði leyfi til rannsókna og nýtingar jarðhita í Brennisteinsfjöllum.

4. Umsókn Hitaveitu Suðurnesja um rannsóknarleyfi fyrir orkuöflun í Krýsuvík og Trölladyngju var svarað 19. september 2006. Í því tilviki kvaðst umhverfisráðuneytið ekki geta tekið afstöðu til rannsókna á svæðinu fyrr en svæðið hefði verið afmarkað betur, minnkað og borunarstæði tilgreint. Jafnframt var bent á að jarðeðlisfræðilegum rannsóknum, sem ekki spilla landi, verði lokið áður en ákvörðun um áhrifameiri aðferðum verður beitt.

5. Umsókn Orkuveitu Reykjavíkur um stækkun staðarmarka og rannsóknarleyfi ásamt forgangi að nýtingarleyfi á jarðhita á Hellisheiðar- og Hengilssvæðinu var svarað 2. maí 2006. Í því tilviki óskaði ráðuneytið eftir því að lagðar yrðu fram ítarlegri upplýsingar um málið áður en gefin verður umsögn um það.

6. Umsókn Orkuveitu Reykjavíkur um rannsóknarleyfi og fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi í landi Berserkjaeyrar við austanverðan Kolgrafarfjörð var svarað 11. maí 2006. Í því tilviki gerði ráðuneytið ekki athugasemd við að leyfið yrði veitt.

7. Umsókn Sunnlenskrar orku ehf. um rannsóknir á jarðhita í Grændal í Ölfusi var svarað 24. maí 2006. Ráðuneytið óskaði í því tilviki eftir ítarlegri upplýsingum um rannsóknir og hvernig þær verði stundaðar án þess að svæðinu verði raskað.

8. Umsókn Orkuveitu Reykjavíkur um nýtingarleyfi á jarðhita í landi Munaðarness í Borgarfirði var svarað 1. mars 2004. Ráðuneytið gerði ekki athugasemd við að leyfið yrði veitt.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hver sé stefna ráðuneytisins varðandi orkuöflun á háhitasvæðum sem jafnframt hafa mikið verndargildi. Því er til að svara að það er mjög mikilvægt að sátt náist um vernd og nýtingu háhitasvæða. Í því tilviki legg ég áherslu á að hafa ber í huga að vernd er nýting og getur jafnvel verið þjóðhagslega arðsamari en orkunýting, t.d. ef litið er til ferðaþjónustu og ótvíræðrar sérstöðu á náttúru landsins á heimsvísu. Við mat á verndun háhitasvæða legg ég mikið upp úr því að sem stendur er unnið að öðrum áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Stefnt er að því að ljúka því verki á árinu 2009. Í þeirri vinnu er sérstaklega litið til háhitasvæða út frá verndargildi. Ég tel að það eigi að fara varlega í veitingu leyfa sem geta haft í för með sér röskun á háhitasvæðum og tel rétt að bíða niðurstaðna 2. áfanga áætlunarinnar áður en ákvarðanir þar að lútandi verða teknar.